Þreföld ráðherraspilling

Greinar

Þegar Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra lét skattgreiðendur borga hálfrar milljónar króna veizlu, sem hann hélt körfuboltamönnum suður með sjó fjórum dögum fyrir síðustu kosningar, fór hann langt út fyrir alla ramma, sem gilt hafa um leyfilega spillingu ráðherra.

Í fyrsta lagi var málefni veizlunnar alls ekki á sviði iðnaðarráðuneytis hans. Ef einhver opinber aðili á að halda slíka veizlu, er það menntaráðherra, sem fer með íþróttamál í ríkisstjórninni og kemur fram fyrir hönd hins opinbera gagnvart íþróttahreyfingunni.

Í öðru lagi er ekki venja, að menntaráðuneyti eða iðnaðarráðuneyti haldi sigurliðum veizlur í tilefni loka Íslandsmóts í körfubolta. Með því að halda veizluna fór Jón Sigurðsson ekki aðeins út fyrir verksvið sitt, heldur rauf þar á ofan hefðir um tilefni veizluhalda.

Ef Jón Sigurðsson hefði verið menntaráðherra og ef venja hefði verið að halda slíkar veizlur fyrir sigurlið í körfubolta, er enn eftir þriðji mælikvarðinn á, hvort rétt hafi verið að halda slíka veizlu í kjördæmi ráðherrans fjórum dögum fyrir alþingiskosningar.

Almenna siðferðisreglan er, að gráa svæðið milli góðra siða og siðleysis þrengist, þegar kringumstæður verða grunsamlegar, svo sem var í þessu tilviki, er veizlugestir voru kjósendur í kjördæmi ráðherrans og áttu eftir að ganga að kjörborðinu eftir fjóra daga.

Iðnaðarráðherra gerðist með veizlu sinni brotlegur á þrefaldan hátt. Hann fór í fyrsta lagi út fyrir verksvið sitt sem ráðherra. Hann fór út í nýja tegund veizluhalda, sem ekki er hefð fyrir. Og hann rauf í þriðja lagi reglur um meðferð slíkra mála í kosningaundirbúningi.

Með því að láta skattgreiðendur borga veizluna gerði iðnaðarráðherra ekki greinarmun á sér sem umboðsmanni framkvæmdavaldsins og sem frambjóðanda Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi. Það er ein algengasta tegund spillingar í þjóðfélaginu um þessar mundir.

Hin tegund spillingar, sem ráðherrar detta stundum í, er að gera ekki greinarmun á sér sem umboðsmanni framkvæmdavaldsins og sem einstaklingi. Sami ráðherra fór út af siðferðiskortinu, þegar hann bauð skólasystkinum til freyðivínsveizlu á Breiðafirði í fyrra.

Í alvöruríkjunum umhverfis okkur er gerður greinarmunur á því, er menn gera sem ráðherrar, sem flokksmenn og sem einstaklingar. Ríkið borgar fyrir þá sem ráðherra, flokkurinn fyrir þá sem frambjóðendur og sjálfir borga þeir fyrir sig sem bekkjarbræður.

Starfsmannastjóri Bandaríkjaforseta fór út af sporinu eins og hinn íslenzki iðnaðarráðherra. Hann notaði flugvélar hersins í þágu flokks síns og sjálfs sín. Nú hefur flokksreikningurinn verið sendur viðkomandi flokki og hertar hafa verið reglur um meðferð mála af þessu tagi.

Ekkert slíkt gerist hér á landi, af því að íslenzka ríkinu er stjórnað af siðleysingjum. Þessir siðleysingjar eru valdir til áhrifa af siðlausum kjósendum, sem gera sér litla sem enga rellu út af þessu og dilla rófunni, ef ruður af spillingunni falla þeim í skaut sem veizlugestum.

Þegar upp kemst um ráðherraspillingu í nágrannaríkjum okkar beggja vegna Atlantshafs, er gripið til gagnaðgerða til að treysta siðaramma og minnka gráu svæðin. Hér á landi láta menn sér fátt um finnast, af því að hér ríkir þriðja heims siðferði hjá almenningi.

Þegar almenningur og stjórnmálamenn líta á ríkissjóð sem herfang, er óhjákvæmilegt að fjármálastjórn verður lakari en venja er hjá vestrænum þjóðum.

Jónas Kristjánsson

DV