Þrengdir kostir vesturveldanna

Greinar

Louise Arbour, forseti stríðsglæpadómstólsins í Haag, segir ákæru dómsins á hendur Slobodan Milosevic Serbíuforseta og helztu samstarfsmanna hans ekki hafa gert hann að vanhæfum samningamanni um Kosovo. Hún hafi bara sýnt fram á vanhæfni hans.

Hingað til hafa vesturveldin hagað sér eins og þau gætu hugsað sér að semja við Milosevic um niðurstöðu Kosovo-deilunnar. Eftir ákæruna um stríðsglæpi er sú leið úr sögunni. Gegn vilja sínum neyðist Atlantshafsbandalagið til að heyja Kosovo-stríð til enda.

Enginn vestrænn ráðamaður hefur lengur ráð á að láta mynda sig við að handsala samkomulag við Milosevic eða helztu samstarfsmenn hans. Hver sá yrði óhreinn á hendinni alla ævi. Stríðsglæpadómstóllinn í Haag hefur snögglega sýnt þeim fram á þetta.

Ákæran jafngildir því ekki, að Slobodan Milosevic fái makleg málagjöld fyrir hrikalega glæpi gegn mannkyninu. Radovan Karadzic og Ratko Mladic ganga enn lausir í Bosníu undir verndarhendi Atlantshafsbandalagsins þrátt fyrir ákæru stríðsglæpadómstólsins.

Hermála- og utanríkisráðuneyti vesturveldanna, einkum Bandaríkjanna, hafa tregðazt við að afhenda stríðsglæpadómstólnum mikilvæg gögn, sem vitað er um í Bosníumálinu. Ekkert bendir til, að tvískinnungurinn verði minni, þegar kemur að gögnum um Kosovo.

Hingað til hefur Atlantshafsbandalagið ekki aðhafzt neitt, sem auðveldi eða flýti fyrir heimkomu brotthrakinna Kosovara. Glæpasveitir Serba leika lausum hala í Kosovo og njóta algerra yfirburða í lofti, þegar þeir beita lágfleygum þyrlum gegn fólkinu í landinu.

Þegar vel viðrar er Atlantshafsbandalagið á ferðinni hæst í háloftunum og dritar sprengjum með litlum árangri. Það hefur tekið meira en tvo mánuði að gera orkuver Serbíu óvirk. Sprengjur bandalagsins hafa lent út og suður og jafnvel lengst austur í Búlgaríu.

Á meðan hefur Slobodan Milosevic getað óáreittur haldið áfram ætlunarverki sínu. Fljótlega verður hann búinn að losa sig við allan þorra íbúa Kosovo með því að drepa þá eða flæma þá úr landi. Þetta er ekki stríð af hálfu Atlantshafsbandalagsins, heldur stríðsleikur.

Við slíkar aðstæður er frábært, að stríðsglæpadómstóllinn í Haag hefur þrengt kosti vesturveldanna. Þau standa nú andspænis því að verða nauðug viljug að breyta stríðsleiknum í stríð. Þau hafa ekki efni á að hætta fyrr en ósigri hefur verið breytt í sigur.

Hér eftir verður markmið vesturveldanna ekki lengur að knýja Milosevic til að fallast á niðurstöðu Rambouillet-fundarins um lausn Kosovo-deilunnar, heldur að reka hann og helztu samverkamenn hans frá völdum, svo að hægt verði að framkvæma niðurstöðuna.

Þetta þýðir aðeins eitt. Gegn vilja sínum verða vesturveldin að byrja að beita þyrlum til að þurrka út nauðgana- og morðsveitir Serbíuhers í Kosovo og undirbúa innrás, sem hefjist á miðju sumri. Hér eftir vinnst sigur aðeins á vígvellinum, ekki við samningaborðið.

Hér eftir geta ráðamenn vesturveldanna ekki lengur leikið það að tala digurbarkalega og stunda sýndarstríð í háloftunum yfir Balkanskaga. Þeir neyðast til að mæta raunveruleikanum og velja milli þess að gefast upp eftir ósigra vorsins eða hefja stríðsrekstur í alvöru.

Framtak Stríðsglæpadómstólsins í Haag markar þáttaskil í Kosovo. Vesturveldin geta ekki lengur þyrlað upp ryki og verða að fara haga sér eins og stórveldi.

Jónas Kristjánsson

DV