Þrengdur kostur illmenna

Greinar

Flest okkar vilja hafa frelsi til að fara þangað, sem okkur langar til að fara, þegar við höfum tíma og peninga. Við viljum ekki, að okkur sé meinað að heimsækja staði, sem aðrir fá að koma til. Þetta gildir ekki sízt um þá, sem hafa nóg af tíma og fé til umráða.

Langflestir staðanna, sem fólk vill fara til, eru innan marka Evrópusambandsins. Þar eru London og París, Kaupmannahöfn og Amsterdam, Róm og Aþena. Þar eru Costa del Sol og Costa Brava, Mallorca og Kanarí, Algarve og Lignano. Þar eru skíðalöndin í Ölpunum.

Ef handtaka hryðjuverkamannsins Pinochets í London leiðir til, að hann verði framseldur til Spánar, þar sem sem hann er eftirlýstur fyrir morð, er stigið mikilvægt skref í þá átt, að illmenni heimsins þori ekki að stíga fæti á umráðasvæði Evrópusambandsins.

Fjársterkir óþokkar hafa ýmsar ástæður til að sakna þess að geta ekki lengur komizt til Evrópu. Sumir vilja leita sér þar lækninga eins og Pinochet. Aðrir vilja komast í næturklúbba og fínimannsklúbba. Einhverjir þeirra vilja sjá sögufræga staði með eigin augum.

Aukin áherzla á mannréttindi er ein afleiðing þess, að vinstri miðjan hefur tekið völdin um nærri alla Evrópu. Thatcher eða Mayor hefðu látið Pinochet í friði. En það gerði Blair ekki. Hann lét taka einræðisherrann höndum og framselur hann vonandi fljótlega til Spánar.

Ekki er einungis sanngjarnt, að Pinochet mæti örlögum sínum á Spáni. Ekki er síður mikilvægt, að öðrum fúlmennum heimsins séu send þau skilaboð, að þeir skuli ekki hætta sér í þann heimshluta, sem flestir vilja heimsækja, ef þeir hafa til þess tíma og fé.

Pinochet er einn þeirra, sem telur eðlilegt að láta kvelja og drepa þúsundir manna, af því að þeir hafa aðrar skoðanir á pólitík en hann. Hann er rakinn óþverri eins og raunar margir fleiri, en var svo ógætinn, að láta nokkra Spánverja fylgja Chilemönnum í dauðann.

Erfitt er að hamla gegn því, að nótar Pinochets taki völd á ýmsum stöðum í þriðja heiminum. Reynslan sýnir, að efnahagslegar þvinganir ná takmörkuðum árangri og koma fremur niður á saklausum almenningi en glæpamönnunum, sem verið er að reyna að siða.

Viðskiptaþvinganir á Írak draga til dæmis ekkert úr prjáli og eyðslu Saddams Husseins, en færa almenningi í landinu ómældar hörmungar. Þessa leið má aðeins fara að vel athuguðu máli og með vel skilgreindum markmiðum, sem líklega er unnt að þvinga fram.

Persónulegar þvinganir á hendur óbótamönnunum sjálfum, nánustu ættingjum þeirra og samstarfsmönnum, eru hins vegar auðveldar í framkvæmd og hafa engar sjáanlegar aukaverkanir í för með sér. Heft ferðafrelsi skerðir lífsgæði þeirra, sem eiga það skilið.

Það verður áfall fyrir úrhrök mannkyns, ef þau verða formlega eftirlýst í einstökum löndum Evrópusambandsins og síðan framseld, hvar sem til þeirra næst á þessu mikilvæga svæði heimsins. Þessi hefting ferðafrelsis er refsing á tungumáli, sem þau skilja.

Í framhaldi af réttmætri handtöku Pinochets í London og væntanlegu framsali hans til Spánar er mikilvægt, að lönd evrópska efnahagssvæðisins taki þessa aðferð upp á arma sína og setji um hana fastar reglur, svo að pólitískum hryðjuverkamönnum séu þær ljósar.

Handtaka Pinochets sýnir breytt gildismat með nýjum tímum og nýjum herrum. Hún er dæmi um, að þjóðum heims tekst stundum að stíga spor fram eftir vegi.

Jónas Kristjánsson

DV