Þrengsli

Frá Kolviðarhóli að Litlalandi í Ölfusi.

Hin gamla Þrengslaleið hestaaldar liggur austar en núverandi bílvegur um Þrengslin. Fylgir gróðurræmu milli hrauns og hlíða frá Kolviðarhóli suður fyrir Litla-Meitil. Þetta er ein af mörgum leiðum Hellisheiðar austur í Ölfus.

Förum frá Kolviðarhóli, þar sem áður var gististaður ferðafólks. Förum suður með fjallshlíðinni við hraunjaðarinn. Fyrst meðfram Stóra-Reykjafelli og klöngrumst yfir þjóðveg 1. Áfram meðfram Litla-Reykjafelli, Stakahnúki, þar sem við erum í 250 metra hæð, Stóra-Meitli og Litla-Meitli, þar sem fjallgarðinum lýkur við Votaberg. Öll þessi leið var milli hrauns og hlíða. Nú stefnum við út á hraunið og förum austan við Sandfell, yfir Þrengslaveg bílanna og síðan vestan við Krossfjöll. Þar sveigjum við til suðausturs og förum niður Fagradal að eyðibýlinu Litlalandi.

17,1 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Jórukleif.
Nálægar leiðir: Dyravegur, Ólafsskarð, Lágaskarð, Skóghlíð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort