Þreytt samstarf norrænt

Greinar

Úti í hinum stóra heimi er gert góðlátlegt grín að norrænu samstarfi. Vikuritið Economist taldi einu sinni 23 norrænar embættismannanefndir, 152 aðrar nefndir og hópa Norðurlandaráðs og 2000 norræn samstarfsverkefni, þar á meðal um varðveizlu leðurhúsgagna.

Við þekkjum ekki mörg dæmi þess, að önnur eins fyrirhöfn skili jafnlitlum árangri. Norrænt samstarf kostar yfir 8 milljarða króna á ári og hefur ekki skilað neinu síðan á sjötta áratugnum, þegar vegabréfsskoðun var afnumin og samið var um ýmis gagnkvæm réttindi.

Síðan eru liðnir meira en þrír áratugir og ekkert hefur gerzt annað en, að flugfélögin blómstra, með fullar vélar stjórnmála- og embættismanna á leið til funda-og veizluhalda af margvíslegu norrænu tagi, þar sem meðal annars er rætt um varðveizlu leðurhúsgagna.

Norrænt samstarf megnaði ekki einu sinni að lækka tolla milli Norðurlanda. Það gerðist ekki fyrr en suðlægari ríki á borð við Austurríki og Sviss, Spán og Portúgal, Bretland og Írland, komu til skjalanna í samstarfi á breiðari grundvelli í Fríverzlunarsamtökum Evrópu.

Nú eru flest þessi ríki gengin í Evrópubandalagið, sem er orðin valdamiðja Evrópu. Norðurlönd sitja áfram á sínum hjara veraldar, stunda norrænar veizlur sínar og aðrar skrautlegar umbúðir utan um ekki neitt eða þá langvinna draumóra um norræna gervihnetti.

Norðurlandaráð og ráðherrafundir Norðurlanda eru getulaus fyrirbæri út á við. Er Eystrasaltsríkin biðja um stuðning, segja þessar norrænu stofnanir ja og humm. Hið eina, sem gert hefur verið af norrænu viti í málum þessara ríkja, er einkaframtak Íslendinga.

Íslenzka veizlugengið á norrænum vettvangi hefur nú fengið ágætan skell, er frændur þess á hinum Norðurlöndunum hafa tekið frá því formennsku í nefndum. Vonandi verður nokkur sparnaður af brottrekstrinum, því að utanferðum hlýtur að fækka við embættamissinn.

Samstarf Norðurlanda í menningarmálum hefur ekki menningargildi, því að það miðast við að halda listamönnum uppi sem eins konar launuðum embættismönnum utan við hinn kröfuharða listamarkað. Enda hafa Norðurlönd dottið út af heimskorti listasögunnar.

Halldór Laxness sagði einu sinni í blaðaviðtali, að Ísland hefði í bókmenntum ekki neitt til Norðurlanda að sækja. Við værum nokkur hundruð árum á undan þeim og yrðum að bera okkur saman við stórveldin, þar sem hin raunverulega bókmenntasaga er að gerast.

Norrænu fólki hefur gengið vel í lífinu. Notalegt þjóðfélag hefur verið búið til á Norðurlöndum. En þessi þægilegi heimur er í auknum mæli að verða afdalur í umheiminum, einangrað fyrirbæri, sem skiptir litlu um framvindu mála í pólitík, efnahag og listum.

Norrænt samstarf hefur í meira en þrjá áratugi verið næsta marklaust. Það sogar samt til sín fé, tíma og krafta, sem ættu frekar að beinast að samskiptum okkar við hinn raunverulega umheim. Við eigum ekki að láta frysta okkur niður í steingeldum félagsskap.

Norrænt samstarf er svo fyrirferðarmikið, að rekstur Alþingis leggst nánast niður í hvert sinn, sem haldið er þing Norðurlandaráðs. Í þessari viku er hið norræna gengi íslenzkra stjórnmála í Kaupmannahöfn að hjálpa við að framleiða auknar umbúðir utan um ekki neitt.

Miklu nær væri að einbeita okkur að eflingu samskipta okkar við hinar raunverulegu miðstöðvar valda, efnahags, menningar og lista í hinum stóra heimi.

Jónas Kristjánsson

DV