Þriðja heims ráðherra

Greinar

Sighvatur Björgvinsson heilbrigðisráðherra lætur skattgreiðendur borga áróðursauglýsingar fyrir nýjum reglum hans um lyfjakaup. Enginn virðist hafa getað komið í veg fyrir þessa óvæntu spillingu hans, hvorki embættismenn né samráðherrar hans í ríkisstjórn.

Þetta er alveg ný tegund af spillingu, sem ekki hefur tíðkazt hér á landi fyrr en á þessu ári, er tveir ráðherrar Alþýðubandalagsins, þeir Ólafur Ragnar Grímsson og Svavar Gestsson, létu skattgreiðendur borga áróðursauglýsingar fyrir ágæti verka sinna í ríkisstjórn.

Ástæða var til að vona, að siðleysi þeirra Ólafs og Svavars væri einstakt fyrirbæri. Auglýsingar þeirra væru mistök, sem ekki yrðu endurtekin af öðrum. Þetta er nefnilega afar óheppileg tegund af spillingu, af því að hún leiðir fljótt út í algerar ógöngur vítahrings.

Auðvelt er að sjá afleiðingarnar, ef siðleysi Sighvats og forgöngumanna hans breiðist út í stjórnmálunum. Þá verður helzta markmið allra stjórnmálamanna að komast í aðstöðu til að láta ríkið, það er að segja skattgreiðendur, borga áróðurskostnað sinn og flokka sinna.

Siðleysi af tagi þeirra Sighvats, Ólafs og Svavars þekkist hvergi á byggðu bóli Vesturlanda. Þetta er dæmigert þriðja heims siðleysi, þar sem ræningjaforingjar líta á pólitískan frama sem ávísun á hlutdeild í herfangi. Þetta rústar efnahag þjóða þriðja heimsins.

Alvarlegast er, að þetta hörmulega hugarfar er ekki bundið við þremenningana eina. Samráðherrar þeirra í ríkisstjórn hafa ekki séð ástæðu til að tala um fyrir þeim, enda er full ástæða til að óttast, að sumir þeirra hugsi sér gott til glóðarinnar, þegar kosningar nálgast.

Ekki eru heldur við að styðjast neinar skrifaðar reglur, sem banni siðleysi af þessu tagi. Stjórnmálamenn hafa verið tregir við að setja slíkar reglur gegn spillingu, þar sem ruglað er saman hagsmunum ríkis, hagsmunum flokks og hagsmunum stjórnmálamanns.

Á Norðurlöndum og í engilsaxneskum löndum eru strangar reglur um, hver sé kostnaður, sem fylgi athöfnum manna sem ráðherrar, hver sé kostnaður, sem fylgi athöfnum þeirra sem flokksforingjar, og hver sé kostnaður, sem fylgi athöfnum þeirra sem einstaklingar.

Við slíka sundurgreiningu er brýnt, að settar séu reglur um, hver séu mörk milli þátttöku í pólitískri umræðu og eðlilegrar fræðslu á vegum ráðuneytis, svo sem við útgáfu upplýsingarita. Áróðursauglýsingar Sighvats eru greinilega röngum megin við þessi mörk.

Þegar ráðherra telur sig þurfa að standa í áróðursstríði við þá undirdeild Alþýðubandalagsins, sem gengur undir nafninu Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, er hann að leggja út í kostnað, sem á að falla á Alþýðuflokkinn, en ekki á skattgreiðendur í heild.

Hliðstætt mál er svo, hvort félagsmenn í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja eigi að greiða hina hliðina á þessu áróðursstríði til að létta fjárhag Alþýðubandalagsins. Félagsmönnum bandalagsins ber að taka afstöðu til þessa auglýsingastríðs rétt eins og skattgreiðendum.

Því miður hefur það komið skýrt fram á mörgum sviðum, að Íslendingar sem heild kæra sig kollótta um pólitíska spillingu af þessu tagi. Margir menn hér á landi hafa þær einu áhyggjur af pólitískri spillingu að komast ekki í aðstöðu til að stunda hana sjálfir.

Meðan Íslendingar hafa þriðja heims viðhorf til spillingar í stjórnmálum fá þeir óhjákvæmilega í hausinn rándýra stjórnmálamenn með þriðja heims siðferði.

Jónas Kristjánsson

DV