Þriðja heims þjóð

Greinar

Þegar venjulegt fólk með sæmilegt siðferði telur sig vera nálægt jaðri hins leyfilega, heldur það sig í öruggri fjarlægð frá gráa svæðinu. Ráðherrar Alþýðubandalagsins eru hins vegar nokkurn veginn siðblindir, þegar þeir rugla saman reytum flokks og þjóðar.

Með því að reka kosningabaráttu Alþýðubandalagsins á kostnað almennings hafa siðblindir ráðherrar flokksins stigið skref út í þriðja heims spillingu, sem mundi í siðuðu þjóðfélagi þurrka flokkinn út af þingi. En íslenzkir kjósendur eru því miður lítt siðsýnir enn.

Ráðherrar Alþýðubandalagsins hafa varið meira en tíu milljónum króna af almannafé til að auglýsa sig og flokk sinn í kosningunum. Þetta gera þeir með auglýsingum og bæklingum, þar sem hallað er réttu máli í flokksþágu og birtar sparimyndir af ráðherrunum.

Dæmigerður er áróður, sem kostaður er af almannafé fjármálaráðuneytis, þar sem ráðherra hossar sér á litlum lántökum erlendis, en gætir þess um leið að minnast ekki á, að hann leysti ekki vandamálið, heldur jók yfirdrátt ríkisins í Seðlabanka, prentaði seðla.

Sérgrein ráðherra Alþýðubandalagsins er að láta almenning borga útgáfukostnað flokksins. Aðrir ráðherrar eru ekki lausir við hliðstæða spillingu. Þeir láta almenning borga fyrir sig dýran flutning í einkaflugvélum á kosninga- og áróðursfundi út um land.

Svo eru það hirðmennirnir sextán, sem ráðherrar allra stjórnarflokkanna hafa hlaðið umhverfis sig í ráðuneytunum. Hirðmennirnir eru þessa dagana önnum kafnir við að reka kosningabaráttu sinna flokka og sinna ráðherra, en taka laun sín hjá almenningi.

Munurinn á spillingu ráðherra Alþýðubandalagsins og annarra ráðherra á þessu sviði felst fyrst og fremst í, að hinir fyrrnefndu hafa fundið nýtt og áður lítt kannað svið til að maka krókinn, meðan hinir síðarnefndu halda sig að mestu nálægt fyrri ramma spillingar.

Ekki má gleyma, að spilling er spilling, hvort sem hún er ný eða gömul. Og spilling íslenzkra ráðherra felst í mörgu öðru en því að láta kostnað, sem með réttu ætti að falla á flokkinn, lenda á herðum skattgreiðenda. Spilling getur verið í þágu annarra en flokksins.

Ráðherrar Alþýðuflokksins hafa með forsætisráðherra gengið fram fyrir skjöldu í persónulegri spillingu, sem felst í að láta kostnað, sem með réttu ætti að falla á þá sjálfa, lenda á herðum skattgreiðenda. Þeir halda vinum og vandamönnum veizlur á kostnað ykkar.

Þegar iðnaðarráðherra bauð skólabræðrum freyðivín skattgreiðenda á Breiðafirði í fyrravor, urðu margir til að dásama ráðherrann, en fáir til að furða sig á, hvers vegna skattgreiðendur skyldu veita þessum árgangi slíka þjónustu. Spillinginn féll í góðan jarðveg.

Ráðherrar eru sérfræðingar í að útvega sér kaupauka í dagpeningum með því að vera langtímum saman í útlöndum. Þeir undanskilja sig reglum, sem þeir setja um bifreiðahlunnindi annarra í þjóðfélaginu. Þeir afla sér lífeyrisréttinda með undraverðum hraða.

Hér á landi má sjá ráðherrabílstjóra hanga tímum saman fyrir utan hús, þar sem ráðherrafrúr eru í teboði. Hér á landi má sjá ráðherrabílstjóra rogast með innkaupapoka fyrir ráðherrafrúr. Ekkert af slíku þekkist í nágrannalöndunum, þar sem fólk er siðaðra.

Þetta leyfa ráðherrar sér, af því að hér býr þjóð með fyrsta heims tekjur, en þriðja heims siðferði, þar sem gildir sama siðblinda hjá háum og lágum og í Afríku.

Jónas Kristjánsson

DV