Frá 15. nóvember í fyrra til 10. janúar í ár hef ég skrifað rúmlega þrjátíu örpistla um íslam. Um jihad og karlrembu og um baráttu miðalda við nútíma. Um terror í París og um ofbeldi í Köln og um afleiðingar af því. Einnig um, hvað Íslendingar geti lært. Um að milda þurfi fjölmenningarstefnu. Grunntónninn er, að í íslam sé allt í einum pakka, trú, menning og pólitík. Að trúin sé miðlæg í vandamálum við aðlögun múslima. Raðaði pistlunum upp í betra samhengi. Birti þá hér alla fyrir þá fáu, sem slíkt nenna að lesa. Sumt er þar margsagt, eðli málsins samkvæmt, þegar langt og flókið mál er brotið upp í stutta búta.
Hér er pakkinn:
Átök urðu að stríði
Íslam brauzt inn í söguna um 630 og náði hámarki um 1200 í Córdoba á Spáni. Þá bar íslam af kristni í menningu og siðum. Þá hófst hnignunin. Fyrst afar hæg, en hraðari eftir landafundi Evrópu, endurreisn í menningu og upplýsingabyltingu Evrópu. Vísindi og tækni; frelsi, jöfnuður og bræðralag gerðu veraldlega Evrópu sterka. Á síðustu öld völtuðu þessi nútímaríki kruss og þvers yfir heim íslams. Olíufundir varðveittu leifar af krafti íslams. Nýríkt íslam fæddi pólitískan íslamisma til að endurreisa forna dýrð íslams. Átök hófust milli íslamisma og vestrænnar veraldarhyggju. Af vaxandi krafti. Heimsstyrjöld 21. aldar er hafin.
Eiturpotturinn jihad
Hámarki náði niðurlæging íslams, þegar vestrænir vantrúarhundar lögðust ofan á lönd íslams, eins og Frakkar í Alsír og Bandaríkjamenn í Afganistan og Írak. Allt slíkt bætist í eitrað minni „jihad“, hins heilaga stríðs. Löngu fyrir Persaflóastríð skrifuðu þekktir sagnfræðingar bækur um vandann. Heilagt stríð gegn vestrænni veraldarhyggju hefur verið á hlóðum múslima um aldir. Allar vélar, öll tæki, allur peningur, öll ljóð, öll menntun er vestræn. Íslam er ósamkeppnishæft við vestræna veraldarhyggju. Þrátt fyrir „Allahu Akbar“ möntru um að Allah sé mikill. Heilagt stríð er vonin. Terror í París er stórt skref.
Orrustan í París
Stríð eru ýmis. Þekktust eru hefðbundin stríð, þar sem herir standa gráir fyrir járnum við víglínu. Þekkjum líka stríð úr fjarlægð með peningum eða flugvélum og nú síðast með mannlausum flygildum. Allar götur hafa líka verið háð stríð, þar sem veikburða heimamenn berjast gegn sterku herveldi utan úr heimi. Þannig er stríð hins pólitíska íslams við vestræn heimsveldi. Sá sterki skapar sér afmarkaðan vígvöll og sá veiki skapar sér svigrúm til skæruhernaðar. Sterkasti skæruhernaður er terror, sem flytur víglínu úr heimalandinu beint yfir í hjarta hins sterka. Á föstudaginn var slík orrusta í París á vegum íslamista.
Átakasvæðinu hliðrað
Enn er allt í óvissu um fjölda látinna í hryðjuverkum róttækra múslima í París. Opinbera talan stendur núna kl.7 í 120 manns á sex stöðum. Flestir voru felldir á rokktónleikum í Le Batacian höllinni. Landamærin eru lokuð og herinn er í viðbragðsstöðu. Nokkrum tímum síðar voru andstæðingar múslima ranglega taldir hafa kveikt í flóttamannabúðunum í Calais, þar sem voru 6000 manns. Sem betur fer eru engar fréttir af öðrum hefndaraðgerðum í Frakklandi. Þetta er nýja stríðstegundin. Sá sem fer halloka á vígvelli, flytur stríðið til almennings í óvinaríki. Eins og Tsétsénar gerðu í Moskvu árið 2002. Þetta er jihad múslima.
Stríðið mikla hafið
Allt bendir til, að hryðjuverkin í París séu verk róttækra múslima. Sé svo, má segja, að þriðja heimsstyrjöldin sé hafin. Milli Evrópu og íslamista. Frakkland hefur lokað landamærum. Önnur lönd munu loka landamærum fyrir múslimum og reka fjölskyldulausa flóttamenn til síns heima. Tími fjölmenningar er liðinn og í staðinn risinn stríðstími haturs á múslimum. Að venju koma slík stríð einkum niður á meinlausu fólki. Hryðjuverk og afleiðingarnar gera það alltaf. Flokkar múslimahaturs munu sækja bratt í kosningum og breyta viðhorfum heilla ríkja til trúarbragða múslima. Moskum wahabíta verður lokað og söfnuðum þeirra tvístrað.
Múslimahatur magnast
Um alla Evrópu mun hatur á múslimum magnast í kjölfar hryðjuverkanna í París. Áður voru hatursflokkar búnir að auka fylgið upp í 20-25% í kosningum og taka völdin í Ungverjalandi og Póllandi. Hatur mun enn magnast, einkum í Frakklandi. Flóttafólk mun líða fyrir hryðjuverkin. Schengen-frelsið er fyrir bí og Evrópa rambar eins og drukkinn Jean-Claude Juncker. Angela Merkel hefur orðið fyrir rothöggi. Hatursfylgið er líklega komið í 30-35% víðs vegar um álfuna. Hér er staðan skárri, við erum ekki gefin fyrir fordóma. En almenningi verður ekki um sel og löggan heimtar forvirkni. Fjölmenningarstefna lifir ekki af svona nætur.
Af hverju hérna?
Athuganir í flestum vestrænum löndum sýna, að þorri trúrækinna múslima styður sharia umfram landslög. Vilja reglur, sem fela í sér karlrembu, kvennakúgun og fjölkvæni. Vilja dauðarefsingar kóransins. Eru bókstafstrúar, þótt þeir telji sig ekki róttæka eða fylgismenn terrorista. Andvígir vestrænum mannréttindum, eins og þeim er lýst í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Trú þeirra er samofin pólitískum viðhorfum, sem eru andstæð stjórnarskrám vestrænna ríkja. Skrítið er, að heilir hópar hafni grunnstoðum vestrænnar tilveru. Ég spyr því: Af hverju eruð þið hérna? Af hverju eruð þið ekki í landi með ykkar lífssýn?
Við vorum einfeldningar
Kjell Stefan Löfven viðurkennir, að „við vorum einfeldningar“. Forsætisráðherra sænskra krata segir fjölmenningarstefnu Svía hafa brugðizt. Landinu stafi ógn af hryðjuverkum. Auðvelt er að sjá úr fjarlægð, að Svíar eru í stórum vanda. Í Málmey er heilt hverfi, Rosengård, orðið að múslimalandi, þar sem löggan þorir ekki inn. Glæpir og ofbeldi, einkum nauðganir, hafa magnast í hverfinu. Börnin þar læra ekki sænsku í skólum, heldur arabísku. Víðar í Svíþjóð þorir fólk ekki út á kvöldin. Sænski draumurinn leikur á reiðiskjálfi. Er svo illa farinn, að varnir munu koma of seint. Danir munu frekar megna að hala sig upp úr ruglinu.
Dauðaþögn og pirringur
Er Kjell Stefan Löfven sagði Svía hafa verið einfeldninga í innflytjendamálum, var það áfall fyrir fjölmenningarsinna. Sjálfur forsætisráðherra kratanna hafði fórnað höndum og játað vangetu fjölmenningar. Á sama tíma er fólk að fatta, að upplýsingar um aðlögun múslima hafa einkennst af þöggun. Glæpir þeirra eru til dæmis faldir undir öðrum liðum í bókhaldinu. Vandinn er töluvert meiri en talið var. Hér tóku sumir Löfven með háværri dauðaþögn og aðrir með pirringi. Ljóst má vera, að Svíþjóð fetar eftir Danmörku, Noregi, Finnlandi frá fyrri stefnu. Raunsærri stefna tekur við af hjartahreinni einfeldni. En of seint, því miður
Undanhald fjölmenningar
Fjölmenningasinnar í nágrannalöndunum hafa staðið fyrir þöggun um vanda tengdan sumum einstaklingum og hópum meðal múslima. Þöggunin er hætt að virka. Fólk fattar, að fjölmenning getur haft galla. Gildir einkum um suma ofsatrúaða og karlrembda múslima. Hefur leitt til eflingar andstæðinga fjölmenningar víðs vegar um Evrópu. Fá nánast fjórðung alls fylgis og munu fara hærra. Mér sýnist fjölmenningarsinnar munu tapa þessu pólitíska stríði. Nema þeir noti reynsluna til að mæla með hófsamari fjölmenningu. Ekkert bendir til slíks. Ábendingum um hófsamlegri fjölmenningu er svarað með tilgangslausum upphrópunum um rasisma.
Aðlagast alls ekki
Það þýðir ekkert að segja sumum múslimum að léttklæddar meyjar á Vesturlöndum séu ekki hórur að biðja um nauðgun. Það þýðir ekkert að segja sumum múslimum að grín og rógur um guðdóminn sé daglegt brauð á veraldlegum Vesturlöndum. Það þýðir ekkert að segja sumum múslimum, að þeir geti ekki sjálfir beitt sharia-lögum í trássi við lög og rétt. Það þýðir ekkert að segja sumum múslimum, að þeir hafi nákvæmlega ekkert yfir konu sinni og dætrum að segja. Sumir fylla miðaldasöfnuði, sem staðfastlega hafna fjölmenningu, vestrænum mannréttindum og lífsstíl, sem mótað hafa Vesturlönd um aldir. Slíkir eiga lítið erindi hingað.
Svívirðileg fósturgjöld
Erlent fæddir ríkisborgarar í Danmörku líta á sig sem Dani. Nema múslimar, 86% þeirra líta EKKI á sig sem Dani. Eftir skop Jyllandsposten 2005 að spámanninum fóru forustumennirnir um heiminn að rægja Danmörku. Samt er Danmörk veraldlegt ríki, þar sem leyft er að hæðast að hvers kyns almætti. Hegðun danskra múslima var svívirðileg aðför að fósturlandinu. Þeir hópa sig saman í sérstökum hverfum og eru þar ríki í ríkinu. Mynda háværa kröfuhópa um fé og fríðindi. Meirihluti kvenna er lokaður inni á heimilum og kann ekki stakt orð í dönsku. Vestræn ríki mega alls ekki láta viðgangast aðför múslima að 500 ára veraldlegri sögu sinni.
Önnur og þriðja kynslóð
Vandi vesturlanda af hryðjuverkum öfgamúslima stafar ekki beint af flóttafólki. Það áttar sig að vísu ekki á mun í lífsviðhorfum Evrópumanna og múslima. Rekur sig á veggi og leitar skjóls í sjálfvöldu gettói kringum mosku öfgapredikara. Börnum þeirra eða barnabörnum vegnar illa í skóla. Þau lenda á glapstigum og verða undir í keppni um störf. Það fær að heyra í moskunni, að vestrið sé vont og móðgun við guð. Úr þessum hópi koma þúsundir rugludalla. Eingöngu úr þeim hópi, trúartenging gerir þá terrorista. Þúsundir fylla sveitir Isis í Sýrlandi og Írak og koma til baka með illt í huga. Evrópa er á þeim punkti í ferlinu.
Verðum áfram vestræn
Hér þarf fátt að breytast í kjölfar hryðjuverkanna í París. Venjulegt fólk ber ekki ábyrgð á þeim. Við tökum við flóttafjölskyldum eins og áður var ráðgert. En munum sníða augljósa vankanta af fjölmenningarstefnu. Viljum ekki sharia, karlrembu, feðraveldi, búrkur, bókstafstrú, miðaldir. Í Róm ertu sem Rómverji, í Reykjavík ertu sem Reykvíkingur. Erlendis eru fjölmörg dæmi um, að róttækir wahabítar skilji ekki eða heyri ekki fræðslu um þau efni. Við munum því ekki flytja inn wahabíta og allra sízt klerka þeirra. Fjölmenningin mun ekki fela í sér neina sambræðslu við forneskjuna. Við gefum ekki eftir veraldlegu hefðina.
Brengluð fjölmenning
Feillinn í fjölmenningarstefnu er, að hún stefnir að sambræðslu hugmyndaheima, ekki að neinu vali. Hún gafst lengi vel á vesturlöndum, því að gamalbúar og nýbúar skildu hver annan. Þetta breyttist með komu múslima. Í ljós hefur komið, að sumir þeirra fíla ekki vestrið. Eru karlrembdir, andvígir kvenréttindum og vilja trúarvæða samfélagið. Vesturlandabúar yfirgáfu hins vegar miðaldir fyrir fimmhundruð árum, tóku upp vestrænt lýðræði fyrir tvöhundruð árum og kvenfrelsi fyrir hundrað árum. Þeir munu ekki vilja gefa eftir á þessum sviðum. Fólk þarf að fatta, að sambræðslu við afturhald íslams verða takmörk sett á vesturlöndum.
Undanhald fjölmenningar
Fjölmenningasinnar í nágrannalöndunum hafa staðið fyrir þöggun um vanda tengdan sumum einstaklingum og hópum meðal múslima. Þöggunin er hætt að virka. Fólk fattar, að fjölmenning getur haft galla. Gildir einkum um suma ofsatrúaða og karlrembda múslima. Hefur leitt til eflingar andstæðinga fjölmenningar víðs vegar um Evrópu. Fá nánast þriðjung alls fylgis og munu fara hærra. Mér sýnist fjölmenningarsinnar munu tapa þessu pólitíska stríði. Nema þeir noti reynsluna til að mæla með hófsamari fjölmenningu. Ekkert bendir til slíks. Ábendingum um hófsamlegri fjölmenningu er svarað með tilgangslausum upphrópunum um rasisma.
Styrjöld lífsskoðana
Stríð er hafið innan öfgamúslima og milli þeirra og veraldarhyggju vesturlanda. Lýsir sér í stríði í Sýrlandi og Írak og í hryðjuverkum í Evrópu. Lág prósenta tekur þátt í öfgunum, en fjöldi einstaklinga er samt hár. Í Vestur-Evrópu eru um 300.000 jihadistar, þeir sem trúa á uppgjör þessara lífsskoðana. Í þessum hópi eiga hryðjuverkamenn skjól. 2000 Evrópu-múslimar hafa barizt í Sýrlandi og Írak undir merkjum Isis. 1000 af þeim eru komnir til baka, þar á meðal 250 til norðurlandanna. Líklega eru þeir flestir undir eftirliti, en meira eða minna ófullnægjandi. Óhjákvæmilegt er, að þessi styrjöld rústi fjölmenningarstefnu.
Gaddavír á landamærum
Stuðningur í Svíþjóð við móttöku flóttamanna hefur á þremur mánuðum minnkað úr 44% í 19%. Meirihluti Svía er andvígur viðtöku. Um áramót setja Svíar eftirlit á Eyrarsundsbrú. Partur af hruni fjölmenningarstefnu í Evrópu. Danir hyggjast rífa skartgripi af flóttamönnum, svo sem frægt er orðið. Markmiðið er að hræða flóttamenn frá komu. Forseti Tékka sakar flóttafólk um skipulega innrás og vill koma því burt. Korsíka hefur formlega lýst yfir sjálfstæði frá Frakklandi, sett upp þjóðrembustjórn. Skríllinn þar er farinn að rústa moskum og brenna kóraninn. Við sjáum fram á gaddavír á öllum landamærum. Stríðið er komið til Evrópu.
Fjölmenning tapaði
Framtíð fjölmenningar er dökk um alla Evrópu, líka á norðurlöndum, þar á meðal hér. Ítrekaðar fréttir af lokun járnbrautarstöðva, almenningstorga, brúa og hverfa magna óttann. Her og lögregla verður það, sem sést bezt á götunum. Bruxelles og París og Köln eru dæmin. Hvert einasta atvik magnar óbeit fólks á múslimum. Fólk sér hættur í hverju horni og alls ekki að ástæðulausu, gleymum því ekki. Móttaka hælisleitenda frá löndum múslima mun koðna niður. Þú hættir ekki lífi og limum í þágu fjölmenningar. Hún er dæmd til að verða „collateral damage“ í stríði miðalda gegn nútíma. Þöggunin í Þýzkalandi mistókst bara.
Terror breytir viðhorfum
Bruxelles er gott dæmi um, hvernig terror breytir lífinu á vesturlöndum. Dögum saman í nóvember lá lífið í borginni beinlínis niðri í kjölfar hryðjuverkanna í París. Her og lögregla var það eina á ferli. Milli jóla og nýárs voru miklar húsleitir í múslimahverfinu Molenbeek í aðeins 20 mínútna göngufæri frá Grand Place, miðpunkti borgarinnar. Áramótahátíðinni á torginu var aflýst. Fólk spyr sig, hvort framvegis verði hægt að sækja kaffihús, matsölustaði, tónleika eða bíósali. 272 Belgar hafa tekið þátt í Isis í Sýrlandi, 121 er kominn til baka. Allt þetta mun magna hatur á múslimum almennt og skrúfa niður móttöku þeirra.
Schengen rotaðist
Schengen er fallið úr gildi. Sérhvert ríki setur upp hindranir á landamærunum og vísar flóttafólki burt. Danmörk sendi herinn að landamærum Þýzkalands og setti þar upp eftirlit. Svíþjóð setti upp eftirlit á brúnni yfir Eyrarsund og á ferjum, sem sigla yfir sundið. Efnahagssvæðið Kaupmannahöfn-Málmey er laskað í bili, því ferðin yfir brúna fram og til baka hefur lengzt um klukkutíma. Í Austur-Evrópu er landamærum hreinlega læst og sama er um Ermasundsgöngin til Bretlands. Partur af því að lenda í styrjöld menningarheima. Evrópusambandið lætur reka á reiðanum, enda stýrt af undirmálsfólki, sem ver ekki ferðafrelsi okkar.
Ofbeldi frá miðöldum
Þýzkaland er í áfalli yfir árásum þúsund ungra hælisleitenda og nýbúa á konur í Köln, Hamborg og Stuttgart. Drukknir múslimar óðu um götur og torg án þess að óviðbúin lögregla fengi að gert. Því er þöggunin að hrynja um glæpabylgju, sem fylgir hælisleitendum með sjónarmið úr miðöldum. Norðurlandabúar eru líka að fatta, að fjölmiðlar reyna að fela aðild múslima að ofbeldisglæpum. Málugir fjölmiðlar eru sakaðir um rasisma. „Af hverju draga fram trúna“, er spurt, „fjölmenning er góð“. Nú er þagnarmúrinn hruninn. Brostin er afneitun á vanda aftan úr miðöldum. Eigum ekki að bjóða hingað miðaldafólki, það er of dýrt.
Þegja fyrst – ljúga svo
Þöggun hefur öfug áhrif, þegar hún kemst upp. Nú sést, að yfirvöld í Svíþjóð og Þýzkalandi ljúga skipulega um vanda tengdan múslimum í hópi innflytjenda. Verra er, að fjölmiðlar taka þátt í þessari þöggun. Þannig sjá Þjóðverjar, að fjölmiðlar þögðu um nýjársnótt í Köln í fjóra daga í von um, að vandinn gufaði upp og hyrfi. Hundrað konur urðu fyrir skelfilegri lífsreynslu, en yfirvöld og fjölmiðlar þögðu bara. Þögðu bara. Sögðu svo, að ekki væri hægt að fullyrða neitt um gerendur. Haldið þið, að fólk sé lengur tilbúið að trúa? Sú aðferð að leysa vanda með því að þegja fyrst og ljúga svo hefur gengið sér til húðar.
Uppskrúfuð karlremba
Hef komið til ríkja múslima og dvalizt viku eða tvær í hverju þessara ríkja: Marokkó, Egyptalandi, Palestínu, Jórdaníu, Tyrklandi og Íran. Hitti heimamenn, einkum kaupmenn, leigubílstjóra og kaffihúsaspekinga. Þetta er prýðisfólk eins og fólk á vesturlöndum. Sá munur er á, að trúin er miklu miðlægari í lífsmynd þeirra. Fara daglega í mosku og falla oft á dag á hné sín í bæn. Tengt trúnni er hin skarpa karlremba, sem litar allan heim múslima. Margfalt magnaðri en karlremba er á vesturlöndum. Það merkilega er svo, að mögnuð karlremban linast ekki, þegar múslimar flytjast til vesturlanda. Og veldur þar rosalegum vanda.
Kristin og íslömsk remba
Kristni var fyrstu aldir einkum kvenleg trú þræla og fátæklinga í Rómarveldi. Þá mótuðust guðspjöll og ekki tiltakanlega karlrembd Maríutrú. Remba kom síðar inn, þegar kirkjan varð pólitísk. Íslam hins vegar var einkum trú stríðsmanna úr eyðimörkinni. Hún ræktaði karlrembu þeirra. Löngu síðar losuðu vesturlönd sig við pólitískt vald kirkjunnar og hófu ferð til lýðræðis og mannréttinda. Lönd íslams hafa aldrei farið gegnum þá endurreisn, upplýsingabyltingu og yfirtöku lýðsins á pólitíkinni. Lýðræði hefur aldrei þrifizt í heimi múslima. Kristin karlremba er jaðarmál hér, en karlremba múslima er miðlægt fyrirbæri.
Dýr aðlögun
Landamærum Evrópu hefur meira eða minna verið lokað fyrir flóttafólki. Sjónir fólks beinast í auknum mæli að flóttafólkinu. Hvað á að gera við allt fólkið, hver á að útvega húsnæði, mat, aðlögun, heilsuvernd og skólagöngu. Ekki síður hver á að siða mannskapinn og hver á að borga. Falsaða bókhaldið dugir ekki. Í Svíþjóð kom í ljós, að yfirlýstur hagvöxtur felst ekki í, að flóttafólk hafi eða fái neina vinnu. Felst bara í, að fjöldi Svía fær góða vinnu við að sinna flóttafólki. Sumt af því er óvinnufært af trúarástæðum og tengdum miðalda-ósiðum. Kostnaður við aðlögun miðaldafólks að veraldlegu lífi verður meiri en annarra.
Skilji draumana eftir
Við eigum að flytja inn flóttafólk og munum gera það. Jafnframt þurfum við að skilja, að bókstafstrúaðir múslimar eiga erfitt með að laga sig að vestrænu samfélagi. Þessir flóttamenn verða eins og aðrir að fatta, að í Róm er maður sem Rómverji. Hvar sem við ferðumst um, þar lögum við okkur að siðum og venjum gistilandsins. Bókstafstrúaðir múslimar verða einnig að gera það. Ekki dugir að láta sig dreyma um sharia, karlrembu, feðraveldi og lægri skör kvenna. Slíkt gengur alls ekki hér. Jafnframt þarf að tryggja, að bókstafstrúaðir predikarar gangi ekki í berhögg við grunngildin. Við þurfum að vanda aðlögun flóttafólks.
Að byrgja brunninn
Hafandi lesið meira en ég kæri mig um af múslima-vanda norðurlanda hef ég tvær tillögur um móttöku flóttafólks:
1. Fyrir komu og við komu sé fólki gerð nákvæm grein fyrir gjánni milli veraldlegrar og múslimskrar lífssýnar. Að sharia-lög gildi ekki hér á landi. Hér sé ekki feðraveldi og konur og börn standi körlum jafnt. Að hér megi allir hæðast að hvers kyns almætti og spámönnum þess. Aðeins með slíkum upplýsingum sé fólki heimiluð landvist.
2. Lokað verði moskum, sem predika hegðun í andstöðu við stjórnarskrána og mannréttindayfirlýsinguna. Klerkum þeirra sé tafarlaust vísað af landi brott. Þetta er upp á framtíðina, veit ekki um slíkar moskur eða klerka núna.
Engar miðaldir hingað
Þegar flóttamenn fara að koma hingað, vænti ég, að menningarheimur okkar verði rækilega útskýrður fyrir þeim. Að hér sé alls ekki rekin fjölmenningarstefna að hætti Svía. Þvert á móti sé staðið fast á veraldlegum grunngildum vesturlanda, mannréttindum og tjáningarfrelsi. Munum ekki stíga eitt skref afturábak í átt til miðalda til að þóknast nýbúum. Sharia og önnur verkleg guðslög verði talin stjórnarskrárbrot, þar með talið verklegt feðra- og karlaveldi. Hér verður ekki ríki í ríkinu að hætti Svía. Við munum læra af biturri reynslu þeirra og skrúfa strax fyrir vandræðin. Aðeins meðtaka jákvæðar hliðar af innflutningi nýbúa.
Alvöru aðlögun
Fjölmenningarstefnu norðurlanda þarf að blandast kröfu um aðlögun múslima að veraldlegu samfélagi. Geta ekki stundað óhefta karlrembu og sharia í vestrænu samfélagi. Verða að sæta því, að gert sé grín að spámönnum og guðum af öllum toga. Fyrst og fremst geta þeir ekki flutt miðaldir með sér til Evrópu. Þýðir, að kostnaður við aðlögun múslima verður miklu meiri en kostnaður við alla aðra hópa. Múslimar mega ekki lokast inni í eigin hverfum, mega ekki detta úr námi, mega ekki verða úrhrök og fangelsafóður. Nútímafólk á vesturlöndum telur sig þurfa að verja torsótt mannréttindi og veraldarhyggju gegn forneskju miðalda.