Þriðja leið til þriðja heims

Greinar

Fólkið í þriðja heiminum er að byrja að átta sig á, að hrun sovézka þjóðskipulagsins er ekki að leiða til leitar þjóða og ráðamanna Austur-Evrópu að þriðju leiðinni milli kommúnisma og kapítalisma, heldur telja þær einfaldlega, að þriðja leiðin vísi til þriðja heimsins.

Í Austur-Evrópu er fólk sér fyllilega meðvitað um, að ekki er til nein leið Framsóknarflokksins, ekki nein leið afrísks sósíalisma og ekki nein önnur heimatilbúin leið, sem reynir að víkjast undan þeirri staðreynd, að opið, vestrænt hagkerfi og stjórnkerfi er eina leiðin.

Þessi skilningur mun leiða til þess, að vestræn þróunaraðstoð mun beinast í auknum mæli frá þriðja heiminum til “annars heimsins”, það er að segja hinna nýkapítalisku ríkja í Austur-Evrópu. Við vitum hvort sem er, að slík aðstoð er gagnslaus í þriðja heiminum.

Heimshlutar á borð við Afríku eru hreinlega að týnast. Vestrænar þjóðir eru löngu orðnar þreyttar á sukkinu þar og sóuninni. Gífurlegar fjárhæðir hafa farið í súginn, svo sem Norðurlandaþjóðir þekkja bezt af ástandinu í Tanzaníu, þar sem lífskjör hafa hríðversnað.

Vesturlandabúar eru orðnir þreyttir á að halda uppi einræðisherrum á borð við Nyerere í Tanzaníu, sem nota vestræna, einkum norræna, þróunaraðstoð til að halda uppi eins flokks stjórnmálakerfi og ríkisreknu atvinnulífi, afrískum þjóðum til langvinnrar bölvunar.

Í Afríku eru margir farnir að átta sig á, að “afrískur” sósíalismi leiðir til glötunar. Í Afríku eru margir farnir að átta sig á, að “alþýðulýðræði” leiðir til glötunar. Í Afríku eru margir farnir að átta sig á, að það eina, sem dugir, er bara vestrænt lýðræði, vestræn gildi.

Eftir hrun sovézka heimsveldisins í Austur-Evrópu og ákvörðun Austur-Evrópuþjóða að fara ekki neina þriðju leið milli vestrænna og austrænna hugmynda standa harðstjórar þriðja heimsins berskjaldaðir gagnvart kúguðum þjóðum sínum, sem munu nú leita frelsis.

Ekki dugir lengur að kalla stjórnarandstæðinga “sendisveina heimsvaldasinna”, sem standi í vegi sameinaðs átaks fátækrar þjóðar í átt til “afrísks alþýðulýðræðis”. Ekki dugir lengur að banna málfrelsi til að þjóðin hafi frið til að “standa saman” um harðstjórann.

Málið snýst ekki bara um, að harðstjórar geta síður en áður haldið völdum með því að haga seglum í vindum kalda stríðsins. Málið snýst ekki bara um, að þeir geta síður en áður sníkt fé af Sovétríkjunum. Málið snýst líka um, að þeir hafa verið vegnir og léttvægir fundnir.

Í flestum ríkjum Afríku hafa lífskjör versnað frá nýlendutíma. Upp hafa risið spilltar yfirstéttir, sem hafa rakað saman auði á kostnað alþýðunnar. Keyrð hefur verið áfram iðnvæðing, meira eða minna ríkisrekin. Flest ríki Afríku eru í rauninni gjaldþrota með öllu.

Á Vesturlöndum eru slík vandamál leyst með því að skipta um stjórnvöld. Það er ekki hægt í eins flokks kerfi harðstjóranna. Þess vegna eru sumir þeirra komnir á undanhald fyrir kröfum um vestrænt lýðræði. Jafnvel Nyerere er farinn að efast um eins flokks kerfið.

Málfrelsi, fjölflokka lýðræði og markaðsbúskapur hafa farið sigurför í fyrsta heimi Vesturlanda og eru að hefja göngu sína í öðrum heimi Austur-Evrópu. Allt bendir til, að þessi gildi henti einnig bezt í þriðja heiminum. Án árangurs hefur annað verið reynt í þrjá áratugi.

Ein merkasta niðurstaða sveiflunnar í Austur-Evrópu er, að mannkynið mun átta sig á, að þriðja leiðin hentar ekki þriðja heiminum frekar en okkur og Pólverjum.

Jónas Kristjánsson

DV