Þótt ótrúlegt megi virðast, eru vinstri flokkarnir að skauta á góðu rennsli í átt til sameiginlegs framboðs í alþingiskosningunum að ári. Allar málefnanefndir flokkanna þriggja, nema utanríkismálanefnd, hafa þegar skilað drögum að stefnu hins sameiginlega framboðs.
Flest bendir til, að allra hörðustu vaðmálssinnar Alþýðubandalagsins, með Hjörleif Guttormsson í broddi fylkingar, verði skildir eftir. Aðrir armar flokkanna þriggja geti náð saman, í sumum tilvikum um það, sem Hjörleifur kallar “hinn minnsta samnefnara”.
Auðvitað er ekki stórbrotin stefna í samstarfsmálum Evrópu að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu. Á sömu forsendum gæti flokkur haft þá stefnuskrá að fylgja jafnan því, sem vinsælast er í skoðanakönnunum á hverjum tíma.
Jóhann Hafstein vitnaði í Biblíuna og sagði: “Í húsi föður míns eru margar vistarverur.” Hann var að tala um Sjálfstæðisflokkinn. Og ætli flokkar sér að verða jafn fjölmennir og sá flokkur, þurfa þeir að geta skautað létt yfir margvíslega mismundi sjónarmið innanflokks.
Erfiðast er að skilja, hvernig íhald og framsókn sameinast í pólitík. Grunnágreiningur hefur alltaf verið um, hvort varðveita eigi hið gamla eða hlúa að hinu nýja. Alþýðubandalagið hefur verið helzti íhaldsflokkurinn og Alþýðuflokkurinn helzti framsóknarflokkurinn.
Málin hljóta að verða snúin, þegar farið er að fjalla um mál á borð við landbúnað og jafnvægi í byggð landsins, náttúruvernd og virkjun fallvatna, erlendar fjárfestingar og gjafakvóta í fiskveiðum. Allt eru þetta mál, þar sem stangast á verndun hins gamla og sókn í hið nýja.
En Sjálfstæðisflokknum hefur tekizt ágætlega að rúma allar þessar þverstæður og fleiri til. Þar á ofan líður honum bezt í helmingaskiptum við annan flokk, sem rúmar líka þetta allt og meira til. Hvor stjórnarflokkurinn um sig er í senn íhalds- og framsóknarflokkur.
Því skyldi sameinaður stjórnmálaflokkur á vinstri vængnum ekki getað skautað jafn léttilega yfir málefnaágreining milli þeirra? Því skyldu frjálshyggjudeild Alþýðuflokksins og vaðmálsdeild Alþýðubandalagsins ekki geta skautað saman til valda í alþingiskosningum?
Alls staðar í kringum okkur eru flokkar að breytast úr skýrt skilgreindum málefnaflokkum í foringjaflokka, sem aðeins í blæbrigðum eru málefnalega öðru vísi en hinir. Því skyldi ekki rísa hér flokkur Ingibjargar Sólrúnar eins og flokkur Davíðs og Halldórs?
Minnkað hefur áhugi kjósenda á skýrt skilgreindum málefnaágreiningi. Þeim mun meiri áhuga hafa þeir á sterkum foringja, sem þeir telja í aðalatriðum vera á réttum nótum. Liðinn er tími hvassra málefna og skýrs ágreinings að hætti Hjörleifs Guttormssonar.
Þannig hafa allir náð saman í málefnanefndunum, stundum með aðferð hins minnsta samnefndara, nema Hjörleifur, sem fer í sérframboð á Austfjörðum, nær þar ekki kjöri og mundi einangrast á þingi, þótt hann næði kjöri. Tími hans aðferða er einfaldlega liðinn.
Fólk styður ekki lengur hugsjónamenn, sem vilja ná völdum til að framkvæma langan málefnalista. Fólk styður atvinnumenn, sem vilja ná völdum til að hafa völd. Hjörleifur mun vafalaust spyrja, hvers vegna fólk styðji slíka, enda er eðlilegt, að spurt sé: “Til hvers?”
Kjósendur hafa engin svör á reiðum höndum. En undir niðri telja margir, að sterkir atvinnumenn séu farsælli en hugsjónamenn á skautasvelli stjórnmálanna.
Jónas Kristjánsson
DV