Þriðji heimurinn í Skorradal

Greinar

Undirbúningur sameiningarkosninga í Skorradal felst í tilraunum til að afskræma lýðræðið með því að beita brögðum til að fá þá niðurstöðu, sem menn vilja. Í stað þess að mæta örlögunum í kosningum er með svindlbraski reynt að framkalla niðurstöðuna fyrirfram.

Þannig er sums staðar farið að í þriðja heiminum, þar sem valdhafar þurfa vegna samskipta við Vesturlönd að hafa lýðræðisleg form á yfirborðinu, en beita ýmsum brögðum til að koma í veg fyrir, að úrslit kosninga geti velt þeim úr sessi eða hamið stjórnarhætti þeirra.

Fremstur í flokki fer oddviti hreppsnefndar, sem vill hindra, að Skorradalur verði sameinaður öðrum sveitarfélögum í nágrenninu, þótt aðstæður hafi myndazt til sjálfvirkrar sameiningar, þar sem íbúafjöldi hreppsins var kominn niður fyrir fimmtíu manns.

Samkvæmt lögum geta fámennari hreppar ekki staðizt, því að hreppar þurfa að hafa fjárhagslega burði til að sinna miklum og vaxandi skyldum, sem lög setja þeim á herðar. Aukin verkefna hreppa hafa að undaförnu leitt til skriðu sameiningar víða um land.

Oddvitinn ráðsnjalli sá, að tvennt þurfti til að koma í veg fyrir sameiningu Skorradals við umheiminn. Annars vegar varð að fjölga íbúum hans upp í fimmtíu, svo að kosning gæti farið fram. Hins vegar varð viðbótin að hafa rétta skoðun, svo að sameining yrði felld.

Í þessu skyni var íbúum hreppsins fjölgað um tólf, einkum með því að skrá utansveitarfólk á heimili oddvitans á Grund og á eyðibýlið Litlu-Drageyri. Allt býr þetta fólk annars staðar og einn raunar í útlöndum. Meðal nýju íbúanna eru tveir tengdasynir oddvitans.

Stuðningsmenn sameiningar reyndu að beita annars konar bolabrögðum til að hindra, að tólf utansveitarmenn gætu ráðið örlögum fimmtíu manna sveitarfélags. Sjö manns fluttu búsetu sína á pappírnum úr hreppnum til að koma íbúatölunni niður fyrir fimmtíu.

Þessi gagnsókn misheppnaðist, því að heildarniðurstaðan varð, að íbúum hreppsins fjölgaði úr 47 upp í 52. Þar með verður að óbreyttu kosið um sameiningu og á þann hátt, að stuðningsmönnum sameiningar hefur fækkað um sjö og andstæðingum fjölgað um tólf.

Miðað við fólksfjölda jafngildir þetta því, að 14.000 stuðningsmenn annars framboðslistans í Reykjavík væru fluttir þaðan og 24.000 utanbæjar-stuðningsmenn hins listans fluttir þangað í staðinn, hvort tveggja til þess að hindra framgang lýðræðislegra leikreglna.

“Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað, þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er, þegar hann er ekki fjarverandi vegna orlofs, vinnuferða eða annarra hliðstæðra atvika.”

Samkvæmt þessum leikreglum er ekki gert ráð fyrir, að sumarbústaður, eyðibýli eða bústaður ættingja geti talizt heimili manna, ef þeir eiga aðalheimili sitt í öðru sveitarfélagi. Fólksflutningar á pappírnum í og úr Skorradal stríða gegn lagaákvæðum um búsetu.

Ekki skiptir máli, hvorum aðila vegnaði betur í braskinu. Aðalatriðið er, að svindlað var á leikreglum til að fá niðurstöðu, sem verður önnur en yrði, ef leikreglum hefði verið fylgt. Fróðlegt verður að fylgjast með, hvort lögleysan í Skorradal nær fram að ganga.

Skorradælsk vinnubrögð eru algeng í eymdarríkjum harðstjóra þriðja heimsins, en hafa hingað til verið nánast óþekkt fyrirbæri á Íslandi, sem betur fer.

Jónas Kristjánsson

DV