Þriðji ósigurinn.

Greinar

Við höfum beðið þriðja ósigurinn í þremur samningum við Alusuisse. Í Zürich í gær var aðeins samið um 50% bráðabirgðahækkun rafmagnsverðs til Ísals. Það er hækkun úr tæplega sjö verðeiningum upp í tæplega tíu.

Þetta er að vísu aðeins bráðabirgðasamningur, sem á að gilda, meðan frekari samningaviðræður standa yfir. Ekki er því loku fyrir það skotið, að sanngjarnt orkuverð til Ísals náist eftir um það bil eitt ár eða svo.

Fyrir tveimur og hálfu ári og jafnvel fyrir einu ári hefði verið í lagi að semja við Alusuisse um svo sem 9,5 verðeiningar fyrir rafmagnið til bráðabirgða, meðan samið væri í alvöru. Þá voru tímarnir allt aðrir en nú.

Til skamms tíma var töluverð kreppa í álframleiðslu í heiminum. Birgðir hlóðust upp, hægt var á vinnslu í mörgum álverum og öðrum var hreinlega lokað. Verð á áli var lágt og fór lækkandi. Þá var erfiðara að réttlæta orkuhækkun.

Nú hefur þetta breytzt með samstilltu átaki einokunarhrings hinna sex stóru fjölþjóðafyrirtækja, sem ráða álmarkaðnum. Þau eru Alcan, Aloca, Reynolds, Kaiser, Pechiney og svo auðvitað Alusuisse, sem við þurfum að glíma við.

Ál hefur tekið við af tini sem aðalefni í dósum. Ál hefur tekið við af kopar sem aðalefni í köplum. Og ál hefur tekið við af stáli sem aðalefni í sumum hlutum bifreiða. Þetta hefur auðveldað hinum sex stóru að laga álverðið.

Í fyrsta skipti í sögunni er ál orðið dýrara en kopar. Í síðustu viku komst verð áls á Lundúnamarkaði upp í 46 krónur á kílóið. Álskorturinn er svo mikill, að Alcoa varð nýlega að kaupa ál til að standa við sölusamninga.

Þetta eru auðvitað kjörnar aðstæður til samninga um hækkað verð á rafmagni til álvera. Aftur eru komnir gróðatímar í álframleiðslu. Og allir vita, að bókfært tap á einu álveri er einfaldur bókhaldsleikur fjölþjóðafyrirtækja.

Við áttum því að ná betri samningum í Zürich í gær en raun varð á. Verðið, sem samið var um, hefði raunar átt að vera í gildi síðasta hálft þriðja árið. En nú átti að vera hægt að semja um hærra verð, til dæmis 13 verðeiningar.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra er bjartsýnn og segist búast við, að rafmagnsverðið til Ísal nái að lokum 17-20 verðeiningum. Vonandi verður honum að þeirri ósk, þótt samningurinn í Zürich gefi ekki tilefni til bjartsýni.

Ekki eru ámælisverð önnur atriði þess samnings en rafmagnsverðið eitt. skynsamlegt var að setja ágreininginn um skattana annars vegar og súráls- og rafskautaverð hins vegar í einfalda og tiltölulega fljótvirka gerðardóma.

Ennfremur var rétt að fallast á hugmyndir Alusuisse um stækkun álversins og nýjan hluthafa, sem gæti orðið Norsk Hydro. Ástæðulaust er þó að gera sér neinar grillur um, að Norðmenn verði ljúfari í samningum en Svisslendingar.

Sú stækkun er alténd háð því, að endanlega náist samkomulag um orkuverð, sem Íslendingar geta sætt sig við. Og það sanngjarna orkuverð er örugglega ekki innan við 17 verðeiningar eins og forsætisráðherra hefur réttilega sagt.

En á meðan við hírumst mánuðum og misserum saman við tæplega tíu verðeiningar, er rétt að ítreka efasemdir um, að hinir ljúfu samningamenn okkar eigi nokkurt erindi í hörkutólin frá Sviss, sem hafa þrisvar leikið á okkur.

Jónas Kristjánsson

DV