Þriðjungur af risnu

Greinar

Risnukostnaður Reykjavíkur hefur hrapað um rúmlega helming á aðeins tveimur árum og um tvo þriðju hluta á fjórum árum. Þegar kostnaðurinn fór mest úr böndum, árið 1992, nam hann 45 milljónum, árið 1994 tæplega 33 milljónum og 15 milljónum á þessu ári.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri telur, að gestgjafahlutverki borgarinnar hafi ekki verið breytt á þessu tímabili, þótt kvöldverðarboðum borgarinnar hafi fækkað. Mestu máli skipti í sparnaði, að hætt hafi verið að bjóða eimað áfengi í móttökum borgarinnar.

Niðurskurður borgarinnar á óþarfri og skaðlegri risnu er öðrum til fyrirmyndar, fyrst og fremst ríkisvaldinu, sem enn leikur lausum hala. Væri nær fyrir varaformann fjárlaganefndar Alþingis að skera hana niður en fara með marklaust fleipur um fjármál Reykjavíkur.

Ef Reykjavík getur sparað 30 milljónir í risnu á ári í fjögurra ára átaki, getur ríkið sparað hundruð milljóna króna á ári á sama hátt. Engin tilraun hefur hins vegar verið gerð til að hafa hemil á risnu ríkisins, þótt enn meiri ástæða sé til sparnaðar á þeim sukksama bæ.

Reykjavík hefur gert margt fleira til að halda útgjöldum í skefjum. Árangurinn má mæla í heildarskuldum borgarinnar, sem munu haldast óbreyttar í rúmum fjórtán milljörðum á tímabilinu 1995-1997. Áður höfðu þær aukizt hratt á hverju ári og tvöfaldazt 1991-1993.

Ríkið getur um margt tekið fjármál Reykjavíkur sér til fyrirmyndar. Þar sem Alþingi á formlega að bera ábyrgð á fjárreiðum ríkisins, en hefur greinilega ekki til þess burði, væri mjög gott, ef varaformaður fjárlaganefndar Alþingis færi á námskeið hjá borginni.

Fjármál ríkisins eru hugsuð út frá byggðastefnu. Varaformaður fjárlaganefndar og mikill hluti þingmanna mæta til þings með þeim ásetningi að hafa sem mest fé úr sameiginlegum sjóði landsmanna til að dreifa í næsta nágrenni við sig. Því er ríkið alltaf á kúpunni.

Síðan geta menn velzt um af hlátri, þegar varaformaður fjárlaganefndar veifar föðurlegum áminningum til Reykjavíkur um að gera svo vel að stuðla ekki að verðbólgu og annarri þenslu með því að halda uppi eins miklum framkvæmdum og verið hafa á undanförnum árum.

Út af fyrir sig geta nánast allir landsmenn aðrir en stjórnmálamenn haft þá skoðun, að Reykjavík og raunar fleiri sveitarfélög megi hafa meiri hemil á framkvæmdum sínum. Varaformaður fjárlaganefndar er hins vegar ekki í þeim fjölmenna hópi, sem getur leyft sér slíkt.

Hins vegar má hafa sem skólabókardæmi um takmarkalaust sjálfstraust af alls engu tilefni að prédika sparnað yfir öðrum, en hafa sjálfur allt niður um sig í fjármálum ríkisins. En það er víst af skorti á sjálfsgagnrýni, sem menn komast helzt áfram í pólitík.

Varaformaður fjárlaganefndar mætti gjarna minnast þess, að ríkið kastar árlega fimm milljörðum króna út í veður og vind með stuðningi fjárlaga við rekstur landbúnaðar sem félagsmálastofnunar og lætur neytendur fórna öðru eins í tolla og höft á innfluttum mat.

Varaformaðurinn gæti byrjað siðvæðinguna í smáum stíl með því að hafa forustu um, að ríkið nái sama hlutfallssparnaði í risnu og borgin. Meðan hann væri önnum kafinn við það, þyrftum við ekki að hlusta á sjálfsgagnrýnislaust óráðshjal hans um fjármál annarra.

Þegar hann væri svo búinn að skera niður risnu ríkisins um tvo þriðju, mætti hann svo berja sér á brjóst og fara sem sérfræðingur að veita ráð í allar áttir.

Jónas Kristjánsson

DV