Þriggja ára friður

Greinar

Einkaneyzla almennings mun ekki aukast eins mikið á þremur næstu árum og ætla mætti af niðurstöðum kjarasamninga. Aukinn kaupmáttur verður notaður til að lækka skuldir heimilanna, sem hér eru meiri en í öðrum ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar.

Að vísu er eðlilegur ótti hagfræðinga við aukinn viðskiptahalla gagnvart útlöndum. Hann verður mikill á þessum þremur árum, ekki mest vegna nýgerðra kjarasamninga, heldur einkum vegna mikilla framkvæmda við fyrirhugaða orkuvinnslu og stóriðju.

Heimilin í landinu hafa safnað allt of miklum skuldum á samdráttarskeiði undanfarinna ára. Meðalskuld heimilis er komin í 128% af ráðstöfunartekjum eins árs, meðan hliðstæðar tölur eru yfirleitt á bilinu 80-110% í þeim vestrænu löndum, sem við höfum til samanburðar.

Vanskil og alls kyns vandræði hafa fylgt skuldasöfnuninni. Mál er að linni, þegar kaupmáttur ráðstöfunartekna er farinn að aukast að nýju og eykst væntanlega um 12% á næstu þremur árum. Þetta eru jaðartekjur, sem geta haft mjög jákvæð áhrif á skuldastöðu heimilanna.

Ef almenningur sér hag í að nota aukinn kaupmátt til að minnka skuldirnar í stað þess að gera rekstur sinn dýrari, komumst við nær eðlilegri eignamyndun almennings. Hlutfall hreinnar eignar af ráðstöfunartekjum er hér aðeins tæp 3%, en er rúm 5% í Bandaríkjunum.

Ríkisvaldið getur stuðlað að þessu með því að reyna að haga málum á þann veg, að fólk freistist fremur en ella til að spara og lækka skuldir. Auk þess verður ríkið sjálft að haga sínum fjármálum á svipaðan veg. Það má ekki nota auknar veltutekjur til að auka umsvif sín.

Gert er ráð fyrir, að verðbólgan nemi 2,4-3% á næstu þremur árum. Það er of mikið, en stafar sumpart af áðurnefndum framkvæmdum við orkuöflun og stóriðju. Mikilvægt er að gera alvarlegar tilraunir til að koma þessu hlutfalli niður í hinn vestræna 2-2,5% staðal.

Allt þetta á að vera hægt, af því að fyrirsjáanlegur er vinnufriður í landinu næstu þrjú árin. Meirihluti launamanna í landinu á aðild að kjarasamningunum, sem gerðir hafa verið að undanförnu og raunar allur þorri þeirra, sem starfa við sjálft atvinnulífið.

Meðal annars er búið að semja fyrir 17 þúsund verzlunarmenn og 29 þúsund verkamenn. Alls er búið að semja fyrir 62 þúsund manns. Hingað til hafa allir samningar fallið í sama farveg. Eftir er að semja fyrir 17 þúsund opinbera starfsmenn og alls fyrir 36 þúsund manns.

Atvinnulífið og ríkisvaldið geta því í stórum dráttum gert langtímaáætlanir, sem miða við þekktar forsendur í hagþróun næstu þriggja ára. Þetta stuðlar að því, að teknar séu í fyrirtækjum ákvarðanir um aukna og nýja starfsemi, sem eflir atvinnu og hagvöxt.

Ýmislegt verður áfram í ólagi eins og verið hefur, svo sem miðstýrður kvóta- og millifærslubúskapur. Koma þarf til dæmis á fót uppboðum á veiðileyfum og hætta opinberum stuðningi við hefðbundinn landbúnað. Hvort tveggja er í þágu neytenda og skattgreiðenda.

En innihald og gildistími kjarasamninganna eru þess eðlis, að helztu stærðir þjóðarbúsins munu væntanlega breytast með ásættanlegum hætti fram að aldamótum. Það er út af fyrir sig töluverður áfangasigur í viðleitninni við að halda landinu byggilegu enn um sinn.

Óvissu hefur að mestu verið eytt. Menn eru hver fyrir sig og sameiginlega farnir að spýta í lófana og búa sig undir væntanlegt velgengnis- og friðartímabil.

Jónas Kristjánsson

DV