Þríhöfða þursinn.

Greinar

Í ævintýrum eru algengar frásagnir af þursum, sein höfðu þá náttúru, að væri af þeim höggvinn hausinn, þá spruttu jafnskjótt þrír hausar í staðinn. Slíkt ævintýri á nú að gerast hjá þursanum Framkvæmdastofnun ríkisins samkvæmt þremur nýjum lagafrumvörpum ríkisstjórnarinnar.

Í stað Framkvæmdastofnunar ríkisins eiga samkvæmt frumvörpunum að koma Byggðastofnun, Framkvæmdasjóður Íslands og sérstakt fyrirbæri, sem er nafnlaust, af því að stjórnarflokkarnir gátu ekki komið sér saman um, hvort heita ætti Þróunarsjóður eða Þróunarfélag.

Samkvæmt frumvörpunum er ekki gert ráð fyrir, að lögð verði niður nein starfsemi, sem nú er á vegum Framkvæmdastofnunar. Ekki er einu sinni vikið að dæmum um slíkt í greinargerðunum, sem fylgja. Þvert á móti er gert ráð fyrir auknum umsvifum eins og hjá þursum ævintýranna.

Stærsti hausinn af hinum þremur nýju er Byggðastofnun, sem á að taka við Byggðasjóði, svo og áætlanadeild og lánadeild gamla þursins. Samkvæmt opinberri hefð á Íslandi fylgir þessu nafnbreyting. Áætlunardeild verður áætlunargerð og lánadeild verður lánastarfsemi.

Auk þess á hin nýja stofnun að fá ný verkefni, því að ofangreind atriði eru bara “hluti” af fyrirhugaðri starfsemi þessa hauss þursans. Ekki kemur þó fram, hver þau verkefni skuli vera, enda talið heppilegast að takmarka sem minnst vaxtarmöguleika haussins.

Enda er mikið í húfi. Byggðastofnun á ekki að sporna gegn, heldur beinlínis “koma í veg fyrir”, að “óæskileg” byggðaröskun eigi sér stað. Þetta á að gerast með lánum, ábyrgðum og óafturkræfum framlögum. Hið síðasta er stofnanamál og þýðir styrkir á íslenzku.

Til að koma í veg fyrir byggðaröskun á stofnunin að hafa til ráðstöfunar, og það verðtryggt, 0,5% af þjóðarframleiðslu hvers árs. Núna mundi þetta nema 385 milljónum króna, ef standast spár um þjóðarframleiðslu ársins. Þetta skilst bezt í samanburði við þriðja hausinn.

Hinn nafnlausi þróunarsjóður eða -félag á að fá hjá ríkinu, ekki í styrk, heldur að láni, 200 milljónir króna, ekki árlega og verðtryggt, heldur í eitt skipti fyrir öll. Enda á örverpið að kosta göngu þjóðarinnar inn í tölvuöld og annað slíkt, sem raskað gæti byggð.

Stærð miðhaussins er svo einhvers staðar á milli hinna tveggja, sem þegar hefur verið sagt frá. Framkvæmdasjóður á að taka við hlutverki Mótvirðissjóðs og annars sjóðs, sem raunar heitir Framkvæmdasjóður. Á því sviði virðist hafa gleymzt að skipta um nafn.

Í heild má segja, að hinn þríhöfða þursi sé verðugur árangur af markvissum og þrautseigum undirbúningi helztu vitringa stjórnarflokkanna. Myndast nú góðir möguleikar á frekari útþenslu í atvinnu hjá ríkinu, betri en núna eru í gamalli Framkvæmdastofnun.

Þá marka frumvörpin þrjú þá grunnmúruðu stefnu, að ríkið skuli fara með fjármagn þjóðarinnar til að tryggja, að það lendi í sem minnstum mæli í greinum, sem horfa til framtíðar, og í sem mestum mæli í greinum, sem horfa til gullaldar fyrri tíma.

Stjórnarflokkarnir tveir vita vel, eins og raunar fleiri stjórnmálaflokkar, að framtíðin er óvisst og hættulegt fyrirbæri, sem ber að forðast, en fortíðin er traust og örugg. Í faðm hennar liggur því leiðin.

Jónas Kristjánsson.

DV