Þrír alvöruleiðtogar

Greinar

Nú eru pólitískir alvöruleiðtogar í landinu orðnir þrír. Til viðbótar við Davíð Oddsson og Steingrím J. Sigfússon er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir orðin flokksformaður. Þetta er allt saman fólk, sem getur leitt flokk sinn og látið hlýða sér, af því að stuðningsmenn telja það munu skaffa fylgi.

Framsóknarflokkurinn er eini hefðbundni flokkurinn, sem ekki hefur alvöruleiðtoga, heldur nokkra PR-menn, sem halda uppi einum manni, sem svíkur kosningaloforð og á erfitt með að ákveða sig, til dæmis um, hverjir taki við ráðherraembættum, sem losna. Halldór Ásgrímsson nýtur ekki trausts hjá fólki.

Ingibjörg Sólrún minnir sumpart á Davíð, harðskeytt og hrokafull, en þannig vill pólitískt sinnað fólk hafa sína menn. Davíð hefur umfram Ingibjörgu Sólrúnu gamansaman og bókmenntalegan þátt, sem lyftir honum upp úr geðþóttanum og yfirganginum, sem oftast einkennir leiðtoga af þessu tagi.

Enginn vafi er á, að Ingibjörg Sólrún mun skaffa sínum flokki fylgi. Hún er eini sjáanlegi leiðtoginn, sem getur tekizt á við Davíð Oddsson í næstu alþingiskosningum og síðan myndað tveggja flokka stjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, fyrstu stjórn sögunnar með slíku mynztri.

Að öðrum kosti hefði ekki verið nein ný ríkisstjórn í spilunum, nema með þáttöku Framsóknarflokksins, sem hefur varðveitt grunnmúraða spillingu og lengi verið mara á pólitíkinni. Framsóknarflokkurinn er rétt skilgreindur sem atvinnumiðlun fyrir flokksmenn og væntanlega flokksmenn.

Fólk er orðið svo þreytt á Framsókn að margir munu flykkjast til Ingibjargar Sólrúnar á kjördegi beinlínis til að reyna að stilla upp aðstæðum fyrir ríkisstjórn, sem ekki þarf að þola aðild Framsóknar. Margir telja Framsókn svo spillta, að hún muni gera allt morkið og úldið, sem hún kemur nálægt.

Ekkert virðist vera því til fyrirstöðu, að Ingibjörg Sólrún fái meira fylgi en Davíð og að Steingrímur fái meira fylgi en Halldór í næstu alþingiskosningum eftir tvö ár. Innreið Ingibjargar Sólrúnar í stétt flokksformanna gerir þessa framtíðarmynd trúverðuga og mun safna saman fylgismönnum.

Flokksþing Samfylkingarinnar um helgina var tímamót í stjórnmálunum, fyrsta ljósið sem sést á ferð okkar í löngu röri samstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar.

DV