Þrír frakkar eru notalegt veitingahús við Vitastíg, lítið og þrískipt í aðalstofu, glerskála og herbergi, með örfáum borðum á hverjum stað. Andrúmsloftið er notalegt og matreiðslan hátt yfir öðrum stöðum í sama verðflokki.
Hér ræður ríkjum Úlfar Eysteinsson tilraunakokkur, sem býður gestum naslfæði úr þurrkaðri loðnu og úr saltfiskroði, bæði sítrónukrydduðu og hvítlaukskrydduðu. Þetta er fiskréttahús með nákvæmum eldunartíma og fjölbreyttum eldunaraðferðum, einn beztu veitingastaða landsins.
Verðlagið er staðarsómi. Á breytilegum dagsseðli eru um það bil níu aðalréttir, sem kosta að meðaltali 1.400 krónur á kvöldin og 800 krónur í hádeginu, að súpu dagsins innifalinni. Eftirréttir kosta um 600 krónur og kaffi 160 krónur. Hvergi í bænum er hlutfall verðs og gæða eins hagstætt og í Þremur frökkum.
Súpa dagsins er yfirleitt tær grænmetissúpa, dökk og sterk, mun betri en uppbökuðu súpurnar, sem tíðkast víðast hvar. Grænmeti með aðalréttum felst yfirleitt í ofsoðnum gulrótum. Eftirréttirnir eru alltaf hinir sömu og orðnir dálítið leiðigjarnir, þótt góðir séu, annars vegar frábær skyrterta, sem bráðnar á tungu, og hins vegar nokkuð góð eplabaka kanilkrydduð.
Hrár hvalur að japönskum hætti er einkennisréttur staðarins, bragðgóður og meyr, borinn fram með sojasósu og piparrót. Nautakjöt er jafnan gott, bragðmikið og meyrt, betra en víðast hvar í bænum. Reyktur lundi var borinn fram þunnsneiddur með hunangssinnepssósu og rauðlauk, fínn matur.
Fiskurinn er aðalatriði matseðilsins, saltfiskur, keila, rauðspretta, plokkfiskur, gellur, steinbítur, lúða, keila, skötuselur og hvaðeina, sem fæst á hverjum tíma, borið fram með hvítum kartöflum. Fjölbreytnin hefur því miður heldur farið minnkandi allra síðustu árin, þótt framboðið á markaði hafi aukizt.
Eldunin felst meðal annars í gufusuðu, ostbökun, grillun, pönnusteikingu eða heilsteikingu, sumpart eftir eðli fisktegunda og sumpart eftir kenjum kokksins. Fjölbreytnin er þó jafnan innan gamalþekkts ramma, sem tímabært er að víkka. Sósur eru fjölbreytilegar og gráðostsósan einstök að gæðum.
Soðinn saltfiskur með hamsatólg að íslenzkum hætti var fallegur, bragðmildur og góður, borinn fram með seyddu rúgbrauði. Ostbakaður saltfiskur með tómatmauki, olífum, hvítlauk og osti var einnig góður, með sterkum tómatkeim að hætti Íberíumanna. Steikt fiskbuff var nokkuð gott, borið fram með lauksósu.
Hvítlauksristaðir keilustrimlar voru góðir, með súrsætri sósu, léttri og sætri. Heilsteikt rauðsprettuflök með rækjum voru með ostþaki, sem er ofnotað í matreiðslu staðarins. Soðnar nýjar gellur voru góðar, hvorki slepjulegar né ofsoðnar, bara mátulegar. Grillsteiktur steinbítur er gamalkunnur réttur á seðlinum og stendur alltaf fyrir sínu, oftast borinn fram með rjómapiparsósu.
Umgerð veizlunnar er óbreytt frá tíð smekkvísra fyrirrennara Úlfars, smágerð og heimilisleg. Þjónusta er góð, eins og á öðrum gæðastöðum, en einkum dugnaðarleg.
Jónas Kristjánsson
DV