Þrír frakkar

Veitingar

Í hádeginu er hljómkviða gemsanna á Þremur frökkum. Þar mega þröngt sitja sátt landssamtök gemsaeigenda sem tala ýmist saman yfir borðum eða sundur inn í gemsana, sem hafa tekið við af tóbaki, sem helzti spillir heimsókna í matargerðarhús.

Að öðru leyti er Þrír frakkar notalega franskur staður að útliti og innihaldi. Upprunalegu, franskættuðu innréttingarnar eru þar enn og verður tæpast nokkru sinni breytt, svo vel heppnaðar eru þær. Miðlægur zinkurinn er að vísu úr harðviði og borðin úr smíðajárni, en dúkarnir eru smárósóttir.

Í hádeginu er franskt bistróverð, 85 frankar (995 krónur) fyrir súpu og val milli tíu aðalrétta. Á kvöldin kostar hins vegar 3.300 krónur fyrir þríréttað með kaffi, eins konar milliverð. Í báðum tilvikum er staðurinn þétt skipaður.

Þetta er einn af hornsteinum íslenzkrar matargerðarlistar og fiskhús landsins númer eitt. Það býður jafnan dagsseðil með tæpri tylft rétta úr fjölbreyttu vali fisktegunda, yfirleitt nákvæmlega elduðum og með alveg óstöðluðu meðlæti, en með osta-rjómasósum, sem líkjast hver annarri í seinni tíð.

Heimsókn er alltaf ævintýri. Verður makríll eða kolmunni á boðstólum í dag? Verður það guðlax eða túnfiskur? Eigum við heldur að halla okkur að einhverju kunnuglegra, til dæmis hunangsmjúkum saltfiski, sem fæst hvergi betri í landinu, afar fínt elduðum, stundum með kapers og rauðlauk, stundum með tómatmauki og ólífum?

Súpa dagsins er alltaf tær og tómatrauðleit grænmetissúpa með grænmetisþráðum, bragðgóð og leiðigjörn í senn. Tilbreyting er í forréttum á borð við ristaðan hörpufisk undurmeyran með rauðlauk eða ljúft reyktan lunda með hunangssinnepssósu.

Hér voru hæfilega steiktar gellur í blaðlauk með mildri rjómasósu, sem kölluð var tómatsósa. Einnig smjörsteiktur skötuselur með skelfiski og sömu sósu, sem í þessu tilviki var kölluð kampavínsrjómasósa. Enn fremur pönnusteikt steinbítsflök með grænmeti og ofangreindri sósu hússins, sem gengur undir ýmsum nöfnum.

Meiri spenna fylgdi pönnusteiktum makríl með vel rjómaðri grænpiparsósu brúnni, fínum mat. Einnig ferskum túnfiski í góðri kampavínssósu, furðanlega lítið grófum mat. Lakari var guðlaxinn, sem er að eðlisfari slakt hráefni, en var hér bjargað fyrir horn með súrsætri sósu, sem yfirgnæfði réttinn.

Hér fékkst líka hæfilega elduð nautahryggsneið, feit og meyr, borin fram með sveppum og pönnusteiktum hýðiskartöflubátum. Eftirréttir eru alltaf hinir sömu, heit eplabaka kanilkrydduð, létt súkkulaðikaka með vanillusósu og of þétt skyrterta. Allar tegundir kaffis eru góðar, bornar fram með heimalöguðum súkkulaðidoppum.

Góðum vínlista fylgir skemmtilegt orðfæri þekkts háls-, nef og eyrnalæknis. Vín eru þar “löng” og “samfelld”, eins og “jarðvegur” eða “svartur pipar” á bragðið, þau eru “létt í nefi” og “fara alla leið”. Ég er einkum feginn hinu síðastnefnda.

Jónas Kristjánsson

DV