Sjávarútvegs- og verktakadeildir landssambands gemsaþræla hlæja hrossahlátri í hádeginu á Þremur frökkum, meðan ímyndardeildir sambandsins hvíslast á í Apótekinu. Hljómkviða gemsanna rennur saman við masið og drukknar í þröngum húsakynnum Þriggja frakka, þar sem hvert sæti er skipað. Á kvöldin er líka fullt, en þá er að mestu slökkt á gemsunum.
Húsakynnin eru franskt bistró, miðlægur bar, hliðarskonsur og litsterkir borðdúkar. Verðið í hádeginu er franskt bistró, 99,99 frankar. Stemningin er franskt bistró, þröng og glaðleg. Maturinn er fiskur og aftur fiskur með ívafi af hval og nauti, hráefnið ferskt og fjölbreytt og matreiðslan í góðu jafnvægi. Naut og hvalkjöt fást raunar tæpast betri annars staðar hér á landi.
Á Þremur frökkum fæst daglega allur fiskur nema ýsa. Oft fæst eitthvað óvenjulegt, svo sem makríll, kolmunni eða guðlax. Yfirleitt eru um átta nýir fiskréttir á boðstólum, t.d. þorskur, steinbítur, rauðspretta, lúða, skötuselur, tindabikkja, gellur og saltfiskur, sem hvergi er betri en hér, að ógleymdum plokkara með rúgbrauði, sem er hreint afbragð. Ostbökun er óþarflega mikið notuð, en þykk ostarjómasósa er sem betur fer heldur minna notuð en áður.
Svo oft hef ég komið hér, að ég er fyrir löngu orðinn leiður á tæru grænmetissúpunni, þótt hún sé hátt hafin yfir kremsúpur annarra íslenzkra veitingastaða. Tilbreyting væri í einföldu hrásalati eða sneið af kryddaðri fiskikæfu sem forrétti dagsins. Framþróun hefur skyndilega orðið í eftirréttum staðarins, því að nú fæst notalega létt og volg frönsk súkkulaðiterta og létt og fín ísterta, sem eru miklu betri en hversdagslegir fyrri eftirréttir staðarins.
Raunar er allur matur góður á Þremur frökkum, jafnvel kaffið, sem borið er fram með súkkulaðidropum staðarins. Meira máli skiptir, að matreiðslan er nánast alltaf eins, svo að hægt er að treysta henni. Úlfar Eysteinsson hefur fundið manneskjulega formúlu fyrir veitingastað og hefur úthald til að halda henni uppi ár eftir ár eftir ár. Þrátt fyrir ágæta nýjung og oft vandaðri matreiðslu í Tveimur fiskum Hafnarbúða eru Þrír frakkar ennþá Hið íslenzka fiskhús, þangað sem maður freistast til að fara með erlenda gesti.
Þjónustan er glaðleg og hlýleg og hugsar vel um gesti. Við pöntun er spurt um reyk eða reyklaust, einn fárra staða, sem hefur frumkvæði að slíku. Tvíréttað með kaffi kostar 1070 krónur í hádeginu og þríréttað með kaffi kostar 3500 krónur á kvöldin, hvort tveggja hóflegt á hérlendum mælikvarða. Þrír frakkar eru traustur klettur í ólgusjó og vaxandi sýndarveruleika íslenzkrar veitingamennsku.
Jónas Kristjánsson
DV