Þrír frakkar fínir

Veitingar

Guði sé lof fyrir kokkinn Úlfar Eysteinsson. “Þrír frakkar” hans hafa lengi glatt bragðlauka mína. Önnur matarhús hafa risið og hnigið að íslenzkum hætti, en Úlfar er alltaf fínn. Hefur nokkrar ferskar tegundir fiskjar á hverjum degi og eldar allan fisk akkúrat. Í gærkveldi fengum við hjónin okkur pönnusteikta tindabikkju með kampavínssósu og hrognum. Svo og djúpsteiktan karfa með ljúfri piparrótarsósu. Fyrst þó forrétti undurljúfa og hráa, hörpufisk og hrefnukjöt. Stíll matreiðslunnar er íslenzkur með japönsku ívafi. Staðurinn og verðið eru notaleg, 2.500 kr aðalrétturinn.