Þrír Frakkar, Sticks’n Sushi, Kínahúsið, Jómfrúin

Veitingar

Fjórir uppáhaldsstaðir
Átta veitingastofur í Reykjavík hafa sérstaklega hagstætt hlutfall verðs og gæða. Um fjórar þeirra í dýrari kantinum var fjallað í þessum þætti í síðustu viku, úrvalsstaðina Sommelier, Holt, Tjörnina og Humarhúsið, sem gott er að heimsækja til hátíðabrigða. Hér verður hins vegar fjallað um ódýrari flokk hagstæðu matstaðanna, Þrjá Frakka, Sticks ‘n Shushi, Kínahúsið og Jómfrúna, sem gott er að leita til hversdagslega án sérstaks tilefnis. Hver þeirra hefur sína sérstöðu, en allir eru þeir uppáhaldsstaðir.

Þrír frábærir Frakkar
Þrír Frakkar eru frábær blanda notalega franskrar hönnunar innréttinga, góðrar stemmningar glaðværra gesta, fjölbreytts og síbreytilegs framboðs sjávarrétta og síðast en ekki sízt ótrúlega hóflegs verðlags. Þetta hefur árum saman verið helzta fiskhús landsins með nákvæmum eldunartímum á ýmsum sjaldséðum fisktegundum. Munið að panta borð, því að færri komast að en vilja. Súpa og aðalréttur kosta um 1735 krónur á kvöldin.
(Þrír Frakkar hjá Úlfari, Baldursgötu 14, sími 552 3939)

Ekta japanskt sushi
Sticks ‘n Sushi er andstæða Þriggja Frakka, nútímalega og uppalega hannaður að hætti japanskrar naumhyggju, þar sem boðinn er eikargrillaður trépinnamatur og hrár ferskfiskur í ýmsum birtingarmyndum, einn og sér, á hrísgrjónabollu eða í þangrúllu. Þetta er japanska framlagið til heimsmenningar mataræðis og eini marktæki fulltrúi þess hér á landi. Súpa og nokkrar tegundir af fiski og pinnamat kosta um 2400 krónur á kvöldin.
(Sticks ‘n Sushi, Aðalstræti 12, sími 511 4440)

Kínahúsið bregzt ekki
Oftast á ævinni hef ég komið í friðsælt Kínahúsið, þar sem kínversk eldamennska haggast hvergi í lífsins ólgusjó. Þetta er kyrrlátur og vinalegur staður einfaldra innréttinga og sérlagaðs matar á hvern disk eða fat fyrir sig, ánægjulegt dæmi um heiðarlegan fjölskyldu-veitingastað, sem heldur sínu striki án þess að hafa komizt í tízku, kjörinn staður fyrir hversdagslega fastagesti. Fjögurra smárétta matseðill kostar um 2300 krónur á kvöldin, en stundum er tilboðsverð.
(Kínahúsið, Lækjargötu 8, sími 551 1014)

Jómfrúin eldist hratt
Þótt þreytubrags sé stundum farið að gæta í danskri nostalgíu Jómfrúarinnar, einkum í eldra brauði og þykkri sósum en áður var, nær hún verðlagsins vegna enn í hóp fjögurra hagstæðu veitingahúsanna. Fyrir utan smurbrauð fæst hér klassík á borð við frikadeller, hakkebøf og ribbensteg upp á dönsk millistríðsár. Aðalréttur með hálfsneið á undan kostar að meðaltali 1590 krónur. Þetta er raunar staður fyrir frúkost, aðeins á sumrin opinn á kvöldin.
(Jómfrúin, Lækjargötu 4, sími 551 0100)
Jónas Kristjánsson

DV