Þrír leikfléttumenn

Greinar

Steingrímur Hermannsson kemur fram í sjónvarpi eins og hann trúi því, sem hann er að segja, og hann talar ekki niður til fólks. Á þessu byggjast vinsældir hans sem stjórnmálamanns. Ofan á þetta bætist svo færni Steingríms við að spila eftir eyranu í stjórnmálum.

Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson kunna líka að spila eftir eyranu. Þeir eru hins vegar ekki vinsælir, nema innan hluta eigin flokka. Þeir tala niður til fólks í sjónvarpi og koma þar fram eins og þeir séu að reyna að telja fólki trú um eitthvað.

Samanlagt eru þessir þrír flokksforingjar dæmi um nýja kynslóð stjórnmálamanna, sem sérhæfa sig meira en áður hefur tíðkazt í að spila eftir eyranu. Þeir minna á skákmenn, sem eru hugkvæmir í fléttum, en hafa ekki eins nákvæma sýn yfir skákina í heild.

Steingrími hefur gengið bezt í þessu. Hann hefur reynt að líkja eftir Schlüter, starfsbróður sínum í Danmörku. Schlüter hefur reynzt snillingur í að tefla saman pólitískum fléttum á þann hátt, að hann sjálfur er oftast ofan á sem forsætisráðherra í minnihlutastjórnum.

Steingrímur lítur á sig sem hliðstæðan listamann, er getur látið ríkisstjórn, sem hefur ekki starfhæfan meirihluta á þingi, sigla frá einu skerinu til annars, án þess að steyta á neinu þeirra. Hann telur sig geta fundið jafnóðum ráð við hæfi til að haga seglum eftir vindi.

Ríkisstjórn Steingríms hefur ekki tryggt sér meirihluta með neinu mikilvægu máli. Hún hefur ekki stuðning við frumvarpið til staðfestingar bráðabirgðalögunum, ekki við fjárlagafrumvarpið og ekki við ýmis tekjuaukafrumvörp. Hún á engan vísan huldumann á þingi.

Listamennirnir eða tækifærissinnarnir þrír, sem hafa forustu fyrir stjórnarflokkunum, hyggjast útvega sér huldumenn eftir aðstæðum hverju sinni. Nokkrar líkur eru á, að þingmenn úr Borgaraflokknum taki að rása, þegar Albert formaður er floginn til Parísar.

Ríkisstjórnin getur teflt fram möguleikum á samningum við einstaka þingmenn úr Borgaraflokknum eða Kvennalistanum, annaðhvort í heild eða í einstökum málum. Hún á jafnvel tvö ráðherraembætti laus, þannig að hún getur enn samið um stuðning heilla þingflokka.

Formennirnir þrír stefna ekki að neinu sérstöku markmiði með þessari ríkisstjórn, öðru en því að prófa, hvað þeim takist að láta hana lifa lengi, þótt hún hafi ekki starfhæfan meirihluta á þingi. Um annað innihald stjórnarsamstarfsins kæra þeir sig kollótta.

Þess vegna lætur Steingrímur sér í léttu rúmi liggja, þótt Jón Baldvin hverfi frá afstöðunni, sem hinn fyrr nefndi mótaði hjá Sameinuðu þjóðunum. Þess vegna lætur Ólafur Ragnar sér í léttu rúmi liggja, þótt Jón Sigurðsson stefni af fullum krafti að nýju álveri.

Í samræmi við leikfléttuhugsjónir þremenninganna hafa þeir ekki ákveðið sameiginlega eða hver í sínu lagi, hvort kosningar verði í vor. Þeir hafa þann möguleika í myndinni og vilja haga skákinni á þann hátt, að þeir geti, ef svo verkast, mætt kjósendum sínum í vor.

Málefnalega standa þremenningarnir illa. Nærri allar tölur um þjóðarhag stefna í óhagstæða átt. Enginn áhugi eða dugur virðist vera í þeirra hópi að hverfa frá dauðastefnunni, sem felst í frystingu efnahagsástandsins og skömmtun opinberra gæða til margs konar gæludýra.

Þeir tefla sig áfram frá einni leikfléttunni yfir á þá næstu og hugsa mest um, hvaða sjónhverfing henti í næsta viðtali dagsins í fréttaleikhúsum sjónvarpsins.

Jónas Kristjánsson

DV