Nú er loksins komið að greininni um toppstaði verðlags í veitingabransanum, þau hús, sem í krafti hárra reikninga gera kröfu um að vera metin topphús. Þar eru margir kallaðir, en fáir útvaldir. Ég ætla ekki að benda á Skólabrú, Perluna, Holtið, Einar Ben, Lækjarbrekku, Argentínu og Apótekið, af því að ég hef áður skrifað um þau og vil ekki aftur borga uppsett verð fyrir fram boðin gæði.
Ég ætla ekki heldur að skrifa um staði, sem hafa kalda nærveru, Vox, sem býður hreina nýklassík, um Sigga Hall og Tvo fiska, sem að mörgu leyti eru áhugaverðir fiskistaðir, um Holtið, sem hefur daprazt flugið og ekki heldur um Tjörnina, sem er of gloppóttur staður til að hægt sé að mæla með honum núna Ég ætla að fjalla um Grillið, Humarhúsið og Sjávarkjallarann sem þrjá toppstaði landsins.
Grillið er tvímælalaust bezti staður landsins, samnefnari fyrir lúxus, sá eini, þar sem verjandi er að sukka með rúmlega 7000 krónur í mat fyrir utan drykki. Grillið sameinar toppmatreiðslu og toppþjónustu og góða nærveru, þrátt fyrir glæsibrag og stóra glugga. Það er ekki gelt, þótt það sé nýklassískt, gælir raunar við nýfrönsku og er eini íslenzki staðurinn, sem fengi 17 punkta af 20 á skala GaultMillau.
Humarhúsið býður ofsalega fína nærveru og frábæra matreiðslu á fiski að nýfrönskum hætti. Þetta er toppstaður, sem ber ekki marga drauga nýklassískrar matreiðslu á herðunum, þar sem gestir eru ekki að kosta tækifæri fyrir kokka til að taka þátt í marklausri keppni. Hér er aðaláherzlan lögð á gæði hráefnis og nákvæmar tímasetningar í matreiðslu, en ekki litið á matreiðslu sem arkitektúr eða myndlist. 16 punktar.
Sjávarkjallarinn er staður með skemmtilegum stæl, en þó með góðri og vandaðri fagmennsku á öllum sviðum. Mér er enn minnisstæð veizla, þar sem boðnir voru tólf smáréttir á 6000 krónur. Húsakynni eru blanda af gamalli steinhleðslu og tízkuhúsbúnaði, þjónusta glaðbeitt og kunnáttusöm og eldamennskan er ekki fast bundin í viðjar nýklassískrar stefnu, leyfir sér tilþrif til annarra átta. Veiki hlekkurinn felst í eftirréttum, sem ekki eru minnisstæðir. 16 punktar.
15 punkta staðir eru svo Holt, Primavera og Vox. Ég efast um, að íslenzkur staður fengi stjörnu í Michelin, kannski Grillið.
Jónas Kristjánsson
DV