Þrjár fréttir flækja mál

Punktar

Stundum flækja fréttir málin. Þrjár fréttir í New York Times í dag sýna, að ekki er allt eins einfalt og við höfum viljað vera láta. Í nokkra áratugi höfum við trúað, að Dauðahafshandritin frá Kumram hafi verið skrifuð í einangruðu munkaklaustri Essena. Nú hefur fornleifagröftur leitt í ljós ýmis atriði, sem benda til, að þetta geti hafa verið venjulegt þorp í samskiptum við umhverfið. Í nokkur ár höfum við trúað, að lýsi eða feitur fiskur tvisvar í viku bægði frá hjartasjúkdómum. Nú bendir ný rannsókn frá Harvard til, að þessi árangur geti náðst, þótt menn fái fisk bara einu sinni til þrisvar í mánuði og að það sé sama, hvort fiskurinn sé feitur eða magur. Loks er sagt frá rannsóknum, sem benda til, að ekki sé endilega neitt unnið við brjóstaskoðun vegna krabbameins, heldur feli hún í sér yfirkeyrða sölumennsku hagsmunaaðila í heilbrigðisþjónustu. Lesið þið og dæmið sjálf. John Noble Wilford skrifar um handritin, Donald G. McNeil um fiskinn og Gina Kolata um krabbameinið.