Þrjár lexíur baráttunnar

Greinar

Kosningabaráttunni er að mestu lokið, enda er aðeins vika til dóms kjósenda. Þeir fáu, sem enn eiga eftir að ákveða sig, munu flestir gera það á grundvelli áhrifa, sem þeir hafa þegar orðið fyrir. Þess vegna er núna strax óhætt að reyna að brjóta baráttuna til mergjar.

Hér í blaðinu er lokið nærri öllu kosningaefni nema auglýsingum. Lokið er yfirreið um kjördæmin og beinni línu flokksformanna. Kjallaragreinar fjara út um miðja næstu viku og á mánudaginn verður birt tafla um misjafnar áherzlur flokkanna í einstökum málum

Þrjú atriði skera í augu, þegar borin er saman kosningabarátta flokkanna. Í fyrsta lagi er það misjöfn áherzla á flokksformanninn. Í öðru lagi er það misjöfn áherzla á yfirboð í kosningaloforðum. Í þriðja lagi er það misjafn kostnaður flokkanna af framboðum sínum.

Þrír af þeim fjórum flokkum, sem mesta von eiga í þingsætum, láta kosningabaráttuna meira eða minna snúast um formann sinn. Eina undantekningin er Samfylkingin, sem sætir því að hafa ekki gert upp við sig, hver verði leiðtoginn á næsta kjörtímabili.

Margrét Frímannsdóttir er kölluð talsmaður Samfylkingarinnar, sumpart í sárabætur fyrir veika stöðu Alþýðubandalagsins í samanburði við Alþýðuflokkinn. Henni er hins vegar ekki hampað í baráttunni í líkingu við það, sem aðrir hampa sínum formanni.

Langt er síðan DV spáði Samfylkingunni erfiðu gengi í þessum fyrstu kosningum sínum. Bræðingur úr þremur flokkum þarf heilt kjörtímabil í stjórnarandstöðu til að stilla saman strengi og átta sig á hinni nýju stöðu. Skoðanakannanir staðfesta allar þessa gömlu spá.

Sjálfstæðisflokkurinn og Græna vinstrið fara sparlega með kosningaloforðin en því meira grýta Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin þeim út um víðan völl. Verðeiningin í loforðaflóði Framsóknarflokksins er milljarður króna, sem er orðinn “milla” nútímans.

Athyglisvert er, að stjórnarflokkarnir halda hvor sína leið í þessu efni. Sjálfstæðisflokkurinn telur heppilegt að vísa til orðins árangurs á liðnu kjörtímabili. Framsóknarflokkurinn byrjaði þannig, en söðlaði fljótt um og vísar nú eingöngu til væntanlegs árangurs á því næsta.

Kosningabaráttan einkennist af mikilli fyrirferð í yfirboðum Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar í kosningaloforðum. Sumpart stafar það af samkeppni þeirra á miðjunni í stjórnmálunum og sumpart stafar það af taugaveiklun út af erfiðu gengi í könnunum.

Flokkarnir eru missparir á útgjöld í kosningabaráttunni. Framsóknarflokkurinn ver 2,5 milljónum á hvert prósent atkvæða sinna og Samfylkingin ver 2 milljónum. Sjálfstæðisflokkurinn og Græna vinstrið verja hins vegar aðeins tæpri milljón á hvert prósent í fylgi.

Að ókönnuðu máli hefði mátt ætla, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði sem flokkur auðmagns greiðastan aðgang að fjármagni og að Samfylkingin ætti peningalega erfitt uppdráttar sem nýtt afl í pólitíkinni. Þessi kenning hefur síður en svo verið staðfest í baráttunni.

Ekkert bendir heldur til, að samband sé milli mikillar fjárhagslegrar fyrirferðar Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni og mikillar áherzlu sömu flokka á girnileg kosningaloforð annars vegar og hins vegar á gengi þeirra í framvindu baráttunnar.

Það má læra af undirbúningi þessara kosninga, að gott sé að hafa formann, sem unnt sé að hafa í eldlínunni og að gott sé að hafa hóf á loforðum og útgjöldum.

Jónas Kristjánsson

DV