Mánuð eftir mánuð magnast straumur ferðafólks til Íslands. Hver spáin á fætur annarri reynist vanmat. Fjölgun ársins komin upp í 40% og í nóvember fór hún upp fyrir 60%. Þetta eru dásamleg og jafnframt hættuleg tíðindi. Engin skipulagði innrásina, hún kom bara. Einstaklingar og fjölskyldur hafa unnið kraftaverk í að útvega fólkinu húsnæði, bíla, mat og afþreyingu. Þannig tókst að lyfta þakinu á viðbúnaðargetu fólks. Ríkið gerði ekkert. Engin merki eru um lát á sprengingunni, sem gæti numið 60% á næsta ári. Þrjár milljónir manna, það er yfirgengilegt. Nú þarf að taka til hendinni, svo að við fáum ekki óorð á okkur fyrir ónýta innviði.