Þrjú brýn verkefni

Greinar

Þótt margt sé jákvætt í samanburði Íslands í samkeppnishæfni við önnur lönd, er meðaltalið óþægilega lágt að mati Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar í Davos. Við erum í 24. sæti af 59 þjóðum, næst á eftir Portúgal og næst á undan Malasíu, langt að baki Vesturlanda almennt.

Grundvöllur þessa mats eru ýmsir þættir, sem stofnunin í Davos telur vera undirstöðu hagvaxtar í framtíðinni. Niðurstaðan er því sú, að Ísland muni á komandi árum dragast aftur úr vestrænum löndum, ef við breytum ekki þeim þáttum, sem draga okkur niður.

Það eru tiltölulega takmörkuð og áþreifanleg atriði, sem við þurfum að lagfæra. Ekkert þeirra á að koma okkur á óvart, því að mikið hefur verið fjallað um þau öll á opinberum vettvangi, ekki sízt hér í leiðurum þessa blaðs. Þau hafa hins vegar ekki náð eyrum ráðamanna.

Hluti vandans felst í, að pólitíska kerfið og ráðuneytakerfið er fámennara og því veikara en í flestum öðrum löndum. Tilviljanakennt er, hvaða framfaramál eru tekin upp og hver eru skilin eftir, af því að ekki er til mannskapur og tími til að sinna þeim öllum sem skyldi.

Skattar á meðaltekjur Íslendinga eru með því mesta sem þekkist í heiminum. Til þess að hægt sé að lækka meðaltekjuskatta, þarf ríkið að draga saman seglin á þjóðhagslega óhagkvæmum sviðum, svo sem í fjáraustri til smábyggðastefnu og til hefðbundinna atvinnuvega.

Hlutfallsleg framlög Íslendinga til rannsókna og þróunar eru með hinum lægstu, sem þekkjast í heiminum. Ríkið þarf sjálft að auka vísindaframlög sín um leið og fyrirtækjum og einstaklingum verði veittur skattaafsláttur út á fjárstuðning þeirra við vísindalegar rannsóknir.

Þjóðhagslegur sparnaður okkar er hlutfallslega séð með því lægsta, sem þekkist í heiminum. Enginn sparnaður er að baki íburðarmikilla frétta af kaupum og sölum á pappírum af ýmsu tagi. Svo virðist sem brask með pappíra sé fyrst og fremst rekið með dýrum lántökum.

Ekki hafa dugað hinar hefðbundnu leiðir að veita fjármagnstekjum fríðindi umfram vinnutekjur með lægri tekjuskatti, 10% í stað 40­50%. Vafasamt er, hvort hægt er að ganga lengra á þeirri braut. Við eðlilegar aðstæður væri raunar eðlilegt, að þessar prósentur væru jafnar.

Til eflingar sparnaðar í landinu þarf flóknari aðgerðir. Ráðast þarf að andrúmslofti eyðslu og sóunar. Íslendingar virðast ginnkeyptir fyrir auglýsingum, sem telja þeim trú um, að þeir þurfi nauðsynlega á margvíslegum óþarfa að halda. Kaupæði okkar gengur út yfir allan þjófabálk.

Skólar geta hjálpað með því að benda krökkum á, að fólk þarf ekki á öllu því að halda, sem það langar til að kaupa, og benda á, að sparnaður eykur svigrúm til skynsamlegra ákvarðana um framtíðina. Ríkið getur hjálpað með auglýsingum til mótvægis eyðsluhvatningu.

Mestur árangur mun þó nást með aukningu þess skyldusparnaðar, sem felst í greiðslum fólks til lífeyrissjóða. Reynslan sýnir, að þessi skyldusparnaður er alfa og ómega alls sparnaðar á Íslandi. Hækka þarf greiðslur í sameignar- og séreignasjóði upp í 15­20% af launum.

Ef ráðamenn okkar gæfu sér tíma til að sinna þessum þremur atriðum sérstaklega: of háum sköttum, of litlum vísindapeningum og of litlum sparnaði, væri á tiltölulega skömmum tíma unnt að hala Ísland upp úr 24. sæti í samkeppnishæfni upp í t.d. 5. sæti við hlið Írlands.

Samanburður stofnunarinnar í Davos er okkur mikilvægt hjálpartæki til að finna, hvar skórinn kreppir og hvar okkar menn þurfa að taka á honum stóra sínum.

Jónas Kristjánsson

DV