Þrjú lögmál einkavæðingar

Greinar

Þrjú grundvallaratriði þarf að hafa í huga, þegar opinberar stofnanir, aðstaða eða fyrirtæki eru seld eða afhent, hvort sem um er að ræða banka eða sjúkraskýrslur, póstþjónustu eða mjölverksmiðjur. Þessi einföldu atriði hafa ekki verið höfð í heiðri hér á landi.

Í fyrsta lagi þarf að tryggja, að einokun, sem oft tengist ríkisrekstri, sé ekki flutt yfir á markaðinn við söluna. Einkavædd einokunarfyrirtæki hækka verð á þjónustu sinni, svo sem enn einu sinni kom í ljós við myndun einokunarfyrirtækisins Bifreiðaskoðunar Íslands.

Þegar fáokunarfyrirtæki á borð við ríkisbankana eru sett á hlutafjármarkað, þarf að haga sölunni á þann veg, að samkeppni aukist frekar en að bönkum fækki. Þess vegna er hættulegt að selja Búnaðarbankann á þann hátt, að eftir sitji Landsbanki og Íslandsbanki.

Fáránlegast af öllu fáránlegu er að búa til nýja einokunaraðstöðu fyrir erlent vildarfyrirtæki og gefa því beinlínis aðstöðuna, svo sem gert er ráð fyrir í lagafrumvarpi um miðlægan gagnagrunn heilbrigðismála í einkahöndum fyrirtækis í Delaware í Bandaríkjunum.

Í öðru lagi þarf að hámarka tekjurnar af sölu ríkiseigna. Það gerist ekki með því að reikna út, að einn Búnaðarbanki eigi að kosta 10 milljarða króna og að einn miðlægur gagnagrunnur heilbrigðismála sé 20 milljarða króna virði og nota síðan þá útreikninga við söluna.

Útreikningar eru ágætir til að spá í spilin, en geta ekki komið í stað útboðs, er leyfir markaðinum að ákveða, hvert sé markaðsvirði þess, sem verið er að selja. Það er grundvallarlögmál núgildandi markaðs-hagfræði, að markaðurinn einn getur ákveðið verðgildi hluta.

Við útboð þarf að haga málum þannig, að hvatt sé til sem hæstra tilboða. Það er gert með því að meta, hvaða útboðsstærðir og útboðsskilmálar henti bezt á ýmiss konar markaði. Þannig má til dæmis bjóða út ríkisbanka sumpart í stórum og sumpart í litlum einingum.

Það glæðir kaupvilja almennings, ef gefinn er kostur á að bjóða í lítið magn hlutabréfa og það glæðir kaupvilja fagfjárfesta, ef einnig er gefinn kostur á að bjóða í stóra pakka, sem gefa von um áhrif á stjórn fyrirtækisins. Útboð séu þannig samræmd ýmsum aðstæðum.

Í þriðja lagi þarf að nota tekjur af sölu ríkiseigna til að minnka skuldir ríkisins, en ekki til daglegra rekstrarþarfa þess. Eignir eiga að koma á móti skuldum eins og rekstrartekjur eiga að koma á móti rekstrargjöldum. Ekki má spilla höfuðstólnum í bókhaldi ríkisins.

Þetta er sérstaklega mikilvægt, þegar seld eru stór fyrirtæki á borð við banka eða landssíma, þar sem milljarðar og jafnvel tugir milljarða eru í húfi. Slíkum summum má ekki hleypa út í daglega veltu ríkissjóðs, heldur nota þær að fullu til að minnka langtímaskuldir hans.

Því miður eru horfur á, að tekjur af fyrirhugaðri sölu hlutafjár í ríkisbönkum muni að hluta verða notaðar til að lina rekstrarþjáningar líðandi stundar hjá ríkissjóði í stað þess að nota þær að fullu til að minnka skuldir hans. Þetta er algengt vandamál í þriðja heims ríkjum.

Við sölu ríkiseigna hefur þessara þriggja meginsjónarmiða hingað til ekki verið gætt sem skyldi. Engin teikn eru á lofti um, að þeirra verði betur gætt við fyrirhugaða sölu og annað framsal ríkiseigna. Beztu dæmin um það eru sjúkraskýrslurnar og bankarnir.

Svona stórar ákvarðanir má alls ekki taka án þess að byggja algerlega á almennt viðurkenndum hagfræðilögmálum, sem eru hornsteinar vestrænna hagkerfa.

Jónas Kristjánsson

DV