Þröngt skal feta.

Greinar

Aukin taugaveiklun hljóp í þingflokk sjálfstæðismanna síðustu daga þinghaldsins. Kom hún fram í landamæraátökum við Albert Guðmundsson, sem í fyrsta skipti var meinaður aðgangur að þingflokksfundi.

Í vetur hefur á þingflokksfundum stundum verið tekinn fyrir dagskrárliðurinn: Málefni stjórnarandstöðunnar. Hafa þá ráðherrarnir og Eggert Haukdal vikið af fundi, þá sjaldan sem þeir hafa verið þar mættir.

Albert Guðmundsson hefur hins vegar ekki vikið af þingflokksfundi við slíkar aðstæður og ekki verið hvattur til þess. Það var í fyrsta skipti á föstudaginn, að þingflokkurinn lét biðja Albert um að vera fjarri.

Ástæðan, sem upp var gefin, var sú, að þeir sjálfstæðismenn, sem hefðu samstöðu í raforkumálum, þyrftu að tala saman í einrúmi. Af þessu mætti ætla, að Albert væri talinn eins konar stjórnarsinni í þessum málaflokki.

Þetta er merkilegt fyrir þá sök, að Albert hafði marglýst andstöðu sinni við orkufrumvarp ríkisstjórnarinnar og greiddi síðan atkvæði gegn því. Að þessu leyti hafði hann samstöðu með stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokksins.

Albert hafði hins vegar sérstöðu, sem ekki skipti máli í skilum milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Hann var andvígur því, að Landsvirkjun yrði falið að reisa og reka allar meiriháttar virkjanir í landinu.

Þar sem Reykjavíkurborg á tæplega 50% í Landsvirkjun, taldi Albert, að of mikil áhætta sé lögð á herðar útsvarsgreiðenda í Reykjavík, ef Landsvirkjun verði gerð að almennum verktaka og eiganda íslenzkra orkuvera yfirleitt.

Á þessari forsendu greiddi Albert atkvæði gegn þessum ákvæðum í breytingarfrumvarpi sjálfstæðismanna og síðan gegn frumvarpinu öllu, alveg eins og hann greiddi atkvæði gegn frumvarpi ríkisstjórneinnar.

Albert hafði líka sérstöðu í öðru hliðarmáli, er Árni Gunnarsson lagði til, að land til þarfa Blönduvirkjunar yrði tekið eignarnámi, ef samningar næðust ekki fyrir 1. ágúst. Albert greiddi atkvæði gegn þessu, meðan sjálfstæðismenn aðrir sátu hjá.

Í hvorugu tilvikinu skipti sérstaða Alberts neinum sköpum. Afgreiðsla þingsins hefði orðið hin sama, þótt hann hefði beygt sig undir útþenslu Landsvirkjunar annars vegar og eignarnám á Blönduheiðum hins vegar.

Sérstaða Alberts í þessum tveimur málum jafngilti engan veginn samstöðu hans með ríkisstjórninni í orkumálum. Hún táknaði aftur á móti skoðun, sem gekk þvert á skil stjórnar og stjórnarandstöðu.

Með þeirri ákvörðun að biðja Albert að víkja vegna þessara tveggja mála virðist þingflokkurinn vera að þrengja svigrúm einstakra þingmanna til sjálfstæðra skoðana, – vera að gera þrengri þann stíg, sem allir þingmenn flokksins verði að feta.

Athyglisvert er, að til nauðsynlegrar stjórnarandstöðu sjálfstæðismanna skuli teljast krafa um, að einstakir þingmenn flokksins styðji útþenslu Landsvirkjunar og séu ekki andvígir eignarnámi. Hið síðara hefði áður fyrr þótt töluverð frétt.

Í rauninni er hér á ferðinni vaxandi taugaveiklun í þingflokknum af hálfu þeirra manna, sem telja nauðsynlegt að víkja úr flokknum, ekki bara ráðherrum, heldur líka landamæramönnum stjórnar og stjórnarandstöðu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið