Þróttur og reisn í veganesti.

Greinar

Við áramótin er ánægjulegast að minnast mikils og vaxandi menningarþróttar Íslendinga. 230 þúsund manna þjóð hefur komið sér upp óperu og nýrri sinfóníu og gefur út fleiri ný skáldrit en á nokkurri annarri jólavertíð.

Þessi þróttur birtist í tónlist, bókmenntum og myndlist. Á öllum þessum sviðum eru Íslendingar athafnasamir framleiðendur og neytendur. Ragnar í Smára blundar í brjósti ótrúlega margra með menningarlegri reisn.

Halldór Laxness þorir meira að segja í blaðaviðtali að telja Skandinava og Þjóðverja vera 800 árum á eftir Íslendingum í bókmenntum. Hann er ekki feiminn við að bera saman París og Reykjavík sem menningarmiðstöðvar.

Á Íslandi er mikill markaður fyrir hvers konar menningu. Fólk kaupir bækur, sækir tónleika, listsýningar og leikhús. Úr breiðum hópi frístundafólks rísa raunverulegir listamenn, sem geta helgað sig snilligáfu sinni.

Hliðstæð er reisnin í íþróttum. Íþróttasalir eru fullir af frístundafólki, sem einnig kaupir sér aðgang að keppnisleikjum. Í handbolta og knattspyrnu etja menn á jafnréttisgrundvelli kappi við stórþjóðir Evrópu.

Dæmin, sem hér hafa verið rakin, sýna og sanna tilverurétt Íslendinga sem sjálfstæðrar og fullvalda þjóðar. Hér er á mörgum sviðum meiri þróttur og reisn en hægt er að finna hjá sumum milljónaþjóðunum hér í kring.

Í vísindum og uppfinningum hafa Íslendingar reynzt liðtækir, þótt árangurinn sé ekki eins augljós og í listum og íþróttum. Hinn ungi rafeindaiðnaður er gott dæmi um hugvit, sem verður í askana látið á næstu árum.

Helzt er það í stjórnmálum, sem við höfum dregizt aftur úr. Ef til vill hafa hæfileikar sogazt svo mjög að listum, íþróttum og vísindum, að ekki sé nóg aflögu í stjórnmálin. Altjend skortir okkur mikilhæfa stjórnmálamenn.

Við höfum sjávarútvegsráðherra, sem vill ekki láta skrá rétt gengi á krónunni og telur fiskiskipaflotann ekki vera of stóran. Við megum jafnvel vera fegin, að hann skuli skorta bein í nef til að fullkeyra vitleysuna.

Ástandið í stjórnmálunum er bagalegra en ella fyrir þá sök, að þar hefur hlaðizt upp vald á öðrum sviðum, svo sem í fjármálum og atvinnulífi. Það eru stjórnmálamenn, sem ráða peningum og efnahag þjóðarinnar.

Eitt mikilvægasta verkefni þjóðarinnar er að laða efnisfólk að stjórnmálum til að efla þjóðarhag og sigla þjóðarskútunni inn í mjög svo ótrygga og hættulega framtíð, þar sem kreppuský hrannast upp við sjóndeildarhring.

Meðal auðþjóðanna beggja vegna Atlantshafs hleðst upp atvinnuleysi. Því fylgir doði og svartsýni, skortur á reisn og þrótti. Draugur haftastefnu er farinn að bæra á sér, þótt menn viti, að allir tapa á viðskiptastríði.

Vonandi bera Vesturlandabúar gæfu til að snúa við, láta bjartsýni taka við af svartsýni, atvinnu taka við af atvinnuleysi, reisn og þrótt taka við af doða, – og framlengja þannig blómaskeið stjórnmála og menningar.

Enn eitt gott ár er senn að baki. Við höfum í stórum dráttum haft ljúfan byr í rúma tvo áratugi. Fyrir óvissuna, sem framundan er, höfum við fengið næði til að safna þrótti og reisn í veganesti, vonandi svo mjög að dugi.

Jónas Kristjánsson

DV