Þrýst á sjóð

Greinar

Minna hefur farið fyrir tíðindum af endursölu Fiskveiðasjóðs á Helga S. en á Kolbeinsey og Sigurfara II. Er sú sala þó dularfull eins og sala Kolbeinseyjar var og sala Sigurfara II virtist ætla að verða. Skýringum hefur verið lofað, en engar fengizt, svo vitað sé.

Særún á Blönduósi bauð hæst í Helga S., 70,6 milljónir króna. Samt var á gamlársdag óvænt gengið frá sölu bátsins til næstbjóðanda, Samherja á Akureyri, sem hafði boðið 68 milljónir. Samherji lét síðan bátinn snarlega í skiptum fyrir stærra skip að sunnan.

Bankastjóri Fiskveiðasjóðs hafði áður haft símasamband við Særúnu til að fá á tilboði hennar skýringar, sem hann fékk. Að öðru leyti var ekkert rætt við fyrirtækið, hvorki fyrr né síðar. Særúnarmenn fréttu í blöðunum, að Helgi S. hefði verið seldur öðrum.

Síðan hefur Særún í tvígang sent stjórn sjóðsins bréf til að óska skýringa á meðferð hans á málinu. Þar er bent á, að Særún hafi aldrei fengið að ræða við sjóðinn um greiðslutryggingar eða önnur framkvæmdaatriði. Þessum bréfum var ekki svarað fyrr en seint og illa.

Í blaðaviðtali hefur bankastjóri Fiskveiðasjóðs lofað útskýringum. Ekki er vitað til, að þær hafi enn litið dagsins ljós, þótt langur tími sé liðinn. Ekki verður hjá því komizt að draga þá ályktun, að sjóðurinn eigi í erfiðleikum með að verja hina undarlegu málsmeðferð.

Endursala sjóðsins á Sigurfara II var í þann veginn að falla í sama farið og salan á Kolbeinsey, þegar sjóðsstjórnarmenn börðu loks í borðið. Komið hafði í ljós í Kolbeinseyjarmálinu, að þeir létu stjórnmálamenn ráða ferðinni. Það orðspor gátu þeir ekki sætt sig við.

Nokkrir stjórnarmanna hótuðu að segja af sér, ef alþingismenn Vesturlands létu ekki af þrýstingi á sölu Sigurfara II til Grundarfjarðar í stað Akraness, alveg eins og alþingismenn Norðausturlands höfðu stjórnað sölu Kolbeinseyjar til Húsavíkur í stað Akureyrar.

Batnandi mönnum er bezt að lifa. Vonandi hafa ráðamenn Fiskveiðasjóðs lært nóg af mistökunum við endursölu Kolbeinseyjar og Helga S. Vonandi er uppreisn þeirra í Sigurfaramálinu vísbending um, að framvegis ráði efnisatriði, en ekki pólitískur þrýstingur.

Í báðum tilvikum er athyglisvert, að ekki er um að ræða hagsmunaágreining milli kjördæma, heldur innan þeirra. Í báðum tilvikum voru þingmenn og sjávarútvegsráðherra að reyna að ýta skipinu til eins staðar í kjördæminu á kostnað annars.

Ennfremur er athyglisvert sjónarmiðið, sem hefur komið fram í máli þrýstiþingmanna. Þeir virðast telja, að þjóðfélagið í heild eigi að taka ábyrgð á útgerð fiskiskipa. Ef útgerð verði gjaldþrota, sé rétt að opinber sjóður beri tjónið og láti skipið síðan til sama staðar.

Annað sjónarmið réð, þegar Grandi var stofnaður í Reykjavík. Þá tók borgin á sig 150 milljónir af skuldum Ottós N. Þorlákssonar til að búa skipinu rekstrargrundvöll í framtíðinni. Menn töldu sér ekki sæma að vaða í Fiskveiða-, Byggða- eða Framkvæmdasjóð.

Ef skoðun þrýstiþingmanna yrði ríkjandi, mundi hún efla byggðagildruna enn frekar en orðið er. Gildran felst í, að fólk er fengið að setjast einhvers staðar að eða til að halda áfram búsetu á grundvelli afar vanmáttugra atvinnufyrirtækja, sem fara sí og æ á höfuðið.

Hún mundi einnig leiða til, að hætt yrði útboðum fiskiskipa, sem gjaldþrota hafa orðið. Slík útboð eru marklaus, nema bezta tilboði sé jafnan tekið.

Jónas Kristjánsson

DV