Þrýstingur er rökum betri

Greinar

Einstaka sinnum verður opinber umfjöllun til þess, að stjórnvöld landsins, Alþingi og ríkisstjórn, bæta ástand mála. Svo virðist sem Bifreiðaskoðun Íslands sé í hópi þeirra hneykslismála, þar sem stjórnvöld taki við sér og framkvæmi breytingartillögur utan úr bæ.

Algengast er, að stjórnvöld láti tillögur utan úr bæ sem vind um eyru þjóta. Gott dæmi um það er sala veiðileyfa í sjávarútvegi. Á því sviði hefur verið ítarleg umræða, sem nærri öll er á einn veg, með sölu veiðileyfa. En umræðan nær engu sambandi við stjórnvöld.

Um sölu veiðileyfa hafa margir fræðimenn samið blaðagreinar, sem samanlagt mynda álitlegan bunka. Gefin hefur verið út bók með helztu tillögum háskólamanna í málinu. Svör við þessari breiðsíðu hafa verið sjaldséð, flutt af hagsmunaaðilum í hópi sægreifa.

Engin hreyfing hefur sézt af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar, enda fjallar málið meðal annars um hagsmuni útgerðarinnar af að fá ókeypis aðgang að helztu auðlind þjóðarinnar. Sérhagsmunir af slíku tagi njóta næstum alltaf töluverðrar verndar af hálfu stjórnvalda.

Það, sem gerðist í máli Bifreiðaskoðunar Íslands, er, að öflugustu þrýstihópar landsins, Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið, sáu sér allt í einu hag í að benda stjórnvöldum á einokunarfyrirtækið sem dæmi um, hvernig fé er haft af fólki og fyrirtækjum.

Ef þessir tveir þrýstihópar fylgja málinu eftir, má heita ljóst, að afnám einokunarinnar verði að þessu sinni hluti af pakkanum, sem stjórnvöld leggja venjulega fram til að greiða fyrir heildarkjarasamningum í landinu. Minni hagsmunir munu víkja fyrir meiri.

Frá því fyrir stofnun Bifreiðaskoðunar Íslands hefur rækilega verið bent á hættuna, sem felst í að breyta ríkiseinokun í einkaeinokun. Þingmenn og ráðherrar og embættismenn höfðu engan áhuga á þessum ráðleggingum utan úr bæ. Umræðan féll í grýttan jarðveg.

Bifreiðaskoðun Íslands hefur í takmarkalítilli græðgi staðfest allar viðvaranir, sem fram komu í fjölmiðlum. Hún hefur staðfest, að einkavæðing er gagnslaus og beinlínis hættuleg, nema hún fylgi markaðslögmálum. Það eru þau, sem gilda, en ekki eignarformið.

Umræða um slík mál hefur engin áhrif. Stjórnvöld á Íslandi taka ekki rökum. En þau hlusta, þegar þrýstihópar setja slík mál í kröfur sínar um að fá frá stjórnvöldum pakka til að liðka fyrir kjarasamningum. Þrýstingur voldugra samtaka hefur áhrif, en rök alls ekki.

Hvað mundi gerast, ef Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið teldu henta sér að fórna hagsmunum landbúnaðarkerfisins? Hvað mundi gerast, ef þessi tvenn samtök heimtuðu, að stjórnvöld léttu landbúnaðarkostnaði þjóðfélagsins af herðum fólks og fyrirtækja?

Áratugum saman hafa verið leidd rök að því, að óbærilegur væri herkostnaður þjóðfélagsins af innflutningsbanni landbúnaðarafurða og öðrum stuðningi stjórnvalda við innlendan landbúnað. Þessi herkostnaður nemur nú orðið líklega um 20 milljörðum króna á ári.

Þessi rök bíta ekki hið minnsta á þingmenn, ráðherra og embættismenn, ekki frekar en rökin um sölu veiðileyfa í sjávarútvegi og ekki frekar en rökin um afnám einokunar Bifreiðaskoðunar Íslands. Það, sem skiptir stjórnvöld hins vegar máli, er afstaða þrýstihópanna.

Leiðin til áhrifa liggur ekki um rök og ræðu í fjölmiðlum, heldur um aðild að kröfugerð þrýstihópanna í landinu. Stjórnvöld láta undan þrýstingi, en ekki rökum.

Jónas Kristjánsson

DV