Þú kaupir íbúð með 100% láni, bíl með 100% láni og græjur og húsbúnað á raðgreiðslum. Þú og bankinn reikna út, að laun þín standi undir vöxtum og afborgunum þessara skulda. Ertu þá búinn að koma málunum í endanlegan farveg inn í sólskinið?
Laun þín lækka skyndilega vegna breytinga í fyrirtækinu eða þá að þú missir vinnuna. Þú getur ekki lengur staðið undir vöxtum og afborgunum. KB-banki hefur séð ráð við því. Hann býður þér launatryggingu, sem bætir þér upp mismuninn. Ertu þá búinn að koma málunum í endanlegan farveg inn í sólskinið?
Hagblaðran springur skyndilega og verðbólga bærir á sér á nýjan leik. Davíð gerir gloríu í Seðlabankanum og vextir hækka um 2%. Þú getur ekki lengur staðið undir vöxtum og afborgunum. Hver sér ráð við því og býður þér tryggingu til að greiða mun á vöxtum við upphaf lántöku og vöxtum hvers tíma?
Við vitum, að óverðtryggð lán eru yfir 7% meðan verðtryggð húsnæðislán eru 4,4% og ná ekki til 25 eða 40 ára eins og verðtryggðu lánin. Hvernig kemur þú í veg fyrir persónulegt gjaldþrot, sem stafar af þeim utanaðkomandi aðstæðum, að verðbólgustig þjóðfélagsins verður allt annað og lakara?
Hundrað prósent lán og raðgreiðslur leysa ekki allan vanda. Þú getur misst vinnuna eða lent í lægra kaupi og þú getur sætt aukinni verðbólgu. Þú átt að geta tryggt þig fyrir öllu þessu, eins og söngkonan tryggir á sér barkann og danskonan tryggir á sér fæturna.
Hvers vegna hefur bara KB-banka dottið í hug að tryggja þig fyrir tekjulækkun og hvers vegna hefur engum dottið í hug að tryggja þig fyrir verðbólgu?
Slíkar tryggingar eiga í fyrsta lagi að standa til boða. Í öðru lagi á kostnaður við þær að liggja fyrir og reiknast inn í myndina, þegar greiðsluþol þitt er reiknað út. Annars ertu með allt þitt í vindinum.
DV