Þú þarft ekki að vera síhress

Greinar

Þáttastjórnendur í sjónvarpi æsa sig upp í að vera hressir á skjánum í hálftíma eða klukkutíma á viku, en geta verið hinir önugustu þess á milli. Þá hlið sjá sjónvarpsnotendur ekki. Þeir fá þá brengluðu mynd af raunveruleikanum, að fræga og fína fólkið í sjónvarpinu sé alltaf bráðhresst.

Þrýstingurinn kemur úr mörgum áttum. Auglýsingar og slúðurtímarit koma því óvart inn hjá venjulegu og eðlilegu fólki, að eitthvað hljóti að vera að því, ef það getur ekki uppfyllt kröfuna um að vera síhresst. Því leitar fólk í auknum mæli á náðir geðbreytilyfja til að bæta stöðuna.

Hefðbundna geðbreytilyfið er áfengi, sem sætir vaxandi samkeppni af hálfu ólöglegra og löglegra fíkniefna. Mest hefur neyzla aukizt á svokölluðu læknadópi. Daglega verða tugþúsundir Íslendinga að taka inn prózak eða annað læknadóp til að treysta sér til að horfast í augu við daginn.

Geðið sveiflast meira hjá sumum en öðrum. Ef sveiflurnar fara út í öfgar, er eðlilegt að menn leiti sér læknis. En skilgreiningin á því, hvað séu öfgar, hefur breytzt. Nú halda margir, að eitthvað sé að þeim, ef þeir eru ekki hressir út í eitt eins og fyrirmyndirnar á skjánum virðast vera.

Íslenzk notkun geðbreytilyfja úr apótekum þrefaldaðist rúmlega á síðasta áratug tuttugustu aldar. Samt harðnaði lífsbaráttan ekki tiltakanlega á þessum tíma. Þvert á móti batnaði hagur fólks. Aukin neyzla hlýtur því að stafa af breyttu mati fólks á því, hvað sé eðlilegt sálarástand.

Hagsmunir framleiðenda eru líka að baki kröfunnar um síhressu. Lyfjafyrirtæki stunda linnulausan áróður meðal lækna og hafa smám saman breytt mati þeirra á því, hvað sé eðlilegt sálarástand fólks. Þau verja meiri fjármunum til áróðurs en til rannsókna og lyfjaþróunar.

Þetta minnir á, hvernig þau komu því inn, að fólk þyrfti átta tíma svefn og yrði ella að taka svefnlyf. Rannsóknir sýna hins vegar að hollara er og líklegra til langlífis að sofa sex-sjö tíma á dag. Með svefnlyfjum reynir heilbrigt fólk að auka svefntíma sinn upp í átta tíma kröfuna.

Ofnotkun svefnlyfja og geðbreytilyfja er dæmi um aukinn þrýsting, sem kemur frá umhverfinu, sumpart að undirlagi lyfjafyrirtækja og sumpart vegna ranghugmynda um eðlilegt sálarástand, sem flæða yfir okkur, einkum úr sjónvarpi, er keyrir linnulaust á uppsprengdri síhressu.

Krafan um síhressu er ný af nálinni. Áður fyrr gerði fólk sér betur grein fyrir, að lífið var ekki og átti ekki að vera dans á rósum. Það vissi, að stundum var tími gleði og stundum var tími sorgar. Fyrst og fremst vissi það, að líðan var oftast hlutlaus, að eðlilegt var að líða hvorki vel né illa.

Ef við fylgjumst með, vitum við, að síhressan er tálsýn. Sjónvarpsfólkið, fína fólkið og fræga fólkið á erfitt í einkalífinu. Það fær taugaáföll og lendir á heilsuhælum og afvötnunarhælum í meira mæli en venjulegt fólk. Þetta stafar af, að það veldur ekki hlutverkinu, sem því er ætlað að leika.

Sérhver ný kynslóð virðist vera dæmd til að ýkja mistök fyrri kynslóða. Sjónvarpsrásir unga fólksins eru enn þrungnari af kröfunni um síhressu en rásir eldra fólksins. Sífellt verður auðvelda að grípa til hættulegra lausna; áfengis, ólöglegra fíkniefna eða læknadóps.

Stóri bróðir ríkisvaldið er hluti vandans en ekki lausnarinnar. Þess vegna verður fólk sem einstaklingar að rjúfa vítahring umhverfisins og afla sér sjálft frelsis frá kröfunni um síhressu.

Jónas Kristjánsson

FB