Þung er ábyrgð þeirra

Greinar

Einhverjir hljóta að bera ábyrgð á hvarfi 62 milljarða króna úr bönkum og sjóðum landsins á tæpum áratug. Þetta er mesta verðmætahrun í sögu landsins. Það jafngildir um kvartmilljón á hvert mannsbarn í landinu. Þetta á ekki að geta gerzt allsendis eftirmálalaust.

Af þessum 62 milljörðum eru 45 milljarðar þegar gufaðir upp. Afgangurinn er í afskriftasjóðum banka og sjóða. Hann verður notaður til að greiða tjón af lánum, sem vitað er, að þarf að afskrifa, hafa enn ekki verið afskrifuð, en verða afskrifuð á næstunni.

Kröfuhafar eru fyrst og fremst viðskiptamenn bankanna, en að nokkru leyti einnig skattgreiðendur, af því að ríkið varð að bjarga Landsbankanum með því að spýta í hann viðbótarpeningum. Viðskiptamenn hafa einkum greitt tjónið í formi vaxtamunar inn- og útlána.

Fyrirferðarmesti hópur viðskiptamanna banka- og sjóða eru fyrirtækin í landinu, sem hafa orðið að greiða óeðlilega mikinn vaxtamun í stað þess að ná hagnaði til að byggja sig upp. Þetta hefur líka skaðað afkomu starfsmanna fyrirtækjanna og þjóðarinnar í heild.

Beinast er að líta til banka- og sjóðastjóranna sjálfra. Þetta eru tiltölulega fáir einstaklingar, sem sumir hverjir bæta veru í sjóðsstjórnum við bankastjórarstarfið. Þetta eru karlarnir með höndina á púlsinum, þegar lánað var gæludýrum kerfisins villt og galið.

Sumir bankastjóranna hafa unnið sig upp í bönkunum, en aðrir eru stjórnmálamenn, sem hafa hreppt stóla í herfang. Sumir hinna síðarnefndu voru annálaðir óráðsíumenn í fjármálum, þegar þeir voru í pólitík, og hafa greinilega lítið skánað síðan í bönkunum.

Næst er að líta til bankaráðanna og tilsvarandi stjórna í sjóðunum. Þetta eru nefndirnar, sem eiga að gæta þess, að banka- og sjóðastjórar geri ekki vitleysur. Þetta eru nefndirnar, sem ráða og reka bankastjóra. Lagalega bera ráðsmennirnir svipaða ábyrgð og bankastjórarnir.

Fulltrúar og trúnaðarmenn stjórnmálaflokkanna skipa bankaráð og sjóðsstjórnir að mestu. Sumpart eru þetta handrukkarar, sem safna í flokkssjóði, sumpart kvígildi flokkanna og sumpart duglegir bitlingasafnarar. Flokkarnir bera ábyrgð á þessu ógæfulega liði.

Stjórnmálaöflin í landinu bera þannig beina ábyrgð á bankaráðunum og óbeina ábyrgð á bankastjórnunum, svo og tilsvarandi liði hjá sjóðunum. Þau bera þar á ofan ábyrgð á því fáokunarkerfi, sem ríkir á lánamarkaði undir stjórn ríkisvaldsins og að mestu í eigu þess.

Eitt helzta áhugamál valdamanna hefur lengi verið að sameina banka, svo að fáokunin verði þrengri en áður. Því þrengri sem fáokunin verður, þeim mun minni líkur eru á, að ein stofnun brjótist út og bjóði hagstæðari lánakjör á forsendum minni óráðsíu í útlánum.

Tvær leiðir virðast helzt vænlegar til úrbóta í bankakerfinu. Önnur er sú, að ríkið selji bankana og sjóðina einhverjum aðilum, sem ekki taka svipaðan þátt í óráðsíunni og eini einkabankinn gerir núna. Hin er sú, að erlendir alvörubankar setji upp útibú á Íslandi.

Enn er ónefndur aðili, sem ber fulla ábyrgð á hvarfi 62 milljarða króna úr vörzlu banka og sjóða. Það eru kjósendur stjórnmálaflokkanna, sem láta þetta eins og annað yfir sig ganga möglunarlaust. Þeir láta sér fátt um finnast og halda áfram að éta það, sem úti frýs.

Kostulegast við ruglið er, að hjálpar er að venju ekki von frá bankastjórum -ráðsmönnum, pólitíkusum eða kjósendum, heldur einu sinni enn frá útlendingum.

Jónas Kristjánsson

DV