Þungavigtarbók um íslenzka hestinn

Hestar

Loksins höfum við fengið sófaborðsbók um íslenzka hestinn, rúmlega þriggja kílóa þungavigtarbók um nokkurn veginn alla þætti hestsins og hestamennskunnar. Bókin heitir Íslenski hesturinn og mun sóma sér á hverju heimili, sem er í hestamennsku.

Myndirnar eru tromp bókarinnar. Hvergi er samankomið á aðgengilegum stað eins mikið og fjölbreytt úrval alls konar mynda, sem ótrúlega margar hafa hvergi birzt áður. Hér er endalaust hægt að fletta fram og aftur og njóta myndanna, sem gegna lykilhlutverki í bókarhönnun Gísla B. Björnssonar.

Textinn er yfirleitt lipurt skrifaður á góðri íslenzku. Helzt má að honum finna, að víða flæðir hann meira en eðlilegt er í góðri sófaborðsbók. Hann flæðir oft milli opna, jafnvel í miðri málsgrein. Víða tekst að hemja hann, en sums staðar ekki. Bókin hefði orðið betri, ef öguðum og knöppum stíl sófaborðsbóka hefði verið stífar haldið.

Í slíkum bókum er venjan að aga textann í aðgreinda kafla inn á opnur, sem hver hefur sitt sjálfstæða hlutverk í bókinni, með eigin fyrirsögnum. Þá er léttara að nota hverja opnu án tillits til þess, sem fór á undan eða fer á eftir, svo sem sjá má í hverri bókabúð, sem selur sófaborðsbækur. Það eru bækur til að fletta óskipulega á ýmsum tímum, oftast skamman tíma í senn.

Vægi einstakra greina er misjafnt í bókinni. Meira er um ættir hesta en heilsufar þeirra. Meira er um keppni og keppnishesta en um útreiðar og hirðingu. Sjálfur hefði ég viljað, að bókin veitti mér meiri skilning á forsögu íslenzka hestsins, leið hans frá Norður-Asíu hingað vestur í Atlantshaf og um hlutverk hernaðar og herferða í þróun hestamennsku.

Auðvitað er þetta ekki fræðirit og á ekki að vera það. Bók af þessu tagi er auðvitað samantekt og úrvinnsla upplýsinga, sem til eru í öðrum bókum, skjölum og tímaritum, ekki sízt í Eiðfaxa. Hún hlýtur því að endurspegla misjafnlega mikinn þekkingarforða um ýmis svið hestamennskunnar, þar sem þyngst hafa vegið ættfræði og sýningar af ýmsu tagi.

Þáttur Þorgeirs Guðlaugssonar um landnám íslenzka hestsins erlendis er sér á parti. Þar gerist bókin heimild, verður fræðitexti. Þar koma fram upplýsingar, sem ég hef ekki séð áður, um að hrossin, sem flutt voru utan á öndverðri nítjándu öld, fóru ekki öll í brezkar kolanámur, heldur voru mörg hver seld sem sporthestar og jafnvel flutt til annarra landa, svo sem Danmerkur og Bandaríkjanna.

Ég hefði viljað fá meiri innsýn í reiðmennsku forfeðra okkar á miðöldum í samanburði við reiðmennsku úti í Evrópu. Ég hefði til dæmis viljað átta mig betur á notkun skeifna, söðla og ístaða á þessum tíma á Íslandi og fá skýringu á, hvers vegna Íslendingar fóru einir þjóða af baki til að berjast, einmitt á riddaratímanum í Evrópu. En bókarhöfundar hafa orðið að sæta skorti á íslenzkum rannsóknum á þessum tíma.

Ekki hnaut ég um villur í bókinni. Í myndatexta á bls.384 með Nautavaðsmynd er talað um Þrándarholt, sem ég held eiga að vera Þjórsárholt. Mér fannst ónákvæmt að fjalla um samskipti norrænna manna við kalífaveldið í skýringartexta a bls.402, þar sem fjallað var um ferðir Íslendinga í Miklagarð. Þar var soldáninn og í Bagdað var kalífinn, en þangað komu Íslendingar ekki. Þeir unnu hjá tyrkneska soldáninum, en fluttu hingað mynt, sem hafði flækzt frá persneska kalífanum.

Þá fannst mér skorta í kaflanum um blöppið, að nefnd háskólans um þá stærðfræði fjallaði um hana sem stærðfræðilega aðferðafræði, en ekki um, hvort sú stærðfræði hentaði þeim tiltekna raunveruleika, sem hún átti að mæla, en um það snerist deilan um blöppið. Niðurstaða nefndarinnar var því ekki marktækt innlegg í sjálfa deiluna.

Allar þessar aðfinnslur eru um minni háttar atriði og mega ekki skyggja á þær staðreyndir, að útgáfa bókarinnar er þrekvirki og að árangurinn af starfinu er frábær. Þetta er bók, sem mun liggja lengi á mínu sófaborði. Ég mun oft fletta í henni og staðnæmast hér og þar eftir tíma og aðstæðum. Þannig er góð sófaborðsbók.

Bezti kaflinn fannst mér vera um hestinn í myndlist Íslendinga á 20. öld. Þar er með ljósmyndum af frábærum listaverkum sýnt fram á, hvernig hesturinn hefur alla tíð verið lykilþáttur í verki þekktustu myndlistarmanna þjóðarinnar, allt frá Jóni Stefánssyni og Jóhannesi Kjarval, Finni Jónssyni og Þórarni B. Þorlákssyni.

Kaflinn um myndlistina ber auðvitað merki annars ritstjóra bókarinnar, Gísla B. Björnssonar, sem er sjálfur listamaður. Þegar ég fletti þessum ágæta kafla, hugsaði ég með sjálfum mér, að næst þyrfti Gísli að færa okkur sófaborðsbók, sannkallaða þungavigtarbók um hestinn í íslenzkri myndlist 20. aldar.

Bókarkaflar eru 16, misjafnlega langir: Uppruni í Asíu. Landneminn. Hjörðin. Litaskrúð. Íslandssagan. Vagnar og vélar. Reiðtygi. Fas og gangtegundir. Hestamennska nútímans. Tamning og þjálfun. Ræktun. Keppni og sýningar. Í útlöndum. Listir og bókmenntir. Göngur og réttir. Fjallafrelsi.

Íslenski hesturinn er rúmlega 400 blaðsíður í mjög stóru broti. Þar eru um 700 ljósmyndir. Ritstjórar eru Gísli B. Björnsson og Hjalti Jón Sveinsson. Þar fyrir utan fjalla Sigríður Sigurðardóttir um reiðtygi, Þorgeir Guðlaugsson um hestinn á erlendri grundu og um keppni, Kári Arnórsson um ræktun. Ljósmyndarar eru auðvitað fjölmargir. Útgefandi er Mál og menning í samstarfi við Sögusetur íslenska hestsins á Hólum. Bókin er prentuð í Odda.

Hér á næstu opnu fyrir aftan er minnkuð útgáfa af einni opnu úr þessari frábæru bók, sem á eftir að gleðja margan hestamanninn á komandi jólum. Til hamingju með þetta afrek.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 1.tbl. 2004.