Þungur klisjuburður

Greinar

Fáum Íslendingum dettur í hug að koma í fiskbúð og biðja um “fullunna” vöru. Menn biðja um nýja ýsu og engar refjar. Á þeim stað dettur fólki ekki í hug, að ný ýsa sé einhvers konar hráefni, sem þurfi að “fullvinna” með ærnum kostnaði í þar til gerðri verksmiðju.

Íslendingar eru ekki einir um að taka nýjan fisk fram yfir verksmiðjufisk. Þeir, sem kaupa af okkur fisk úti í heimi, vilja yfirleitt borga töluvert meira fyrir ferska vöru en unna. Þetta kemur fram í markaðsverði, sem við sjáum daglega á viðskiptasíðum dagblaðanna.

Sem þjóð græðum við meira á að selja fiskinn ferskan, því að þannig fæst mest fyrir hann, auk þess sem sparast töluvert af kostnaðinum, sem annars legðist á fiskinn í fiskvinnslustöðvum. Þetta er hagfræðilögmálið um hámörkun arðs með sem minnstri fyrirhöfn.

Stofnanir og samtök hafa fyllzt af svokölluðum hagfræðingum, sem eiga að vita þetta og mættu reyna að hafa vit fyrir þeim, sem flagga klisjunni um fullvinnslu sjávarafurða. Flestir fræðinganna láta klisjuna samt afskiptalausa og sumir hverjir ýta jafnvel undir hana.

Ýmsar aðstæður geta valdið því, að menn vilji láta hamast á fiski í verksmiðjum, þótt það lækki verðgildi matarins. Slík iðja getur til dæmis klætt atvinnuleysi í dulargervi atvinnubótavinnu, þegar atvinnuástand fer versnandi í þjóðfélaginu, svo sem nú er að gerast.

Eðlilegt er, að fólk, sem sér fram á atvinnumissi, myndi með sér enn einn þrýstihópinn til að berjast fyrir því, að fiskur fáist í vinnslustöðvarnar, jafnvel þótt það skaði almannahagsmuni. Það er eðli þrýstihópa að verja sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna.

Hins vegar er ekki eðlilegt, að þeir, sem af margvíslegum sérhagsmunaástæðum vilja hafa ferskfiskgróðann af þjóðfélaginu, komist átölulítið og ár eftir ár upp með að uppnefna gæðavöru sem “hráefni” og hefja lakari og ódýrari vöru til skýjanna sem “fullunna”.

Fyrir almannahagsmuni væri bezt að leggja mesta áherzlu á að bæta meðferð afla og efla samgöngutækni, svo að koma megi enn meiri hluta sjávarafurðanna í fersku og dýrseldu ástandi til erlendra neytenda. Til þess þarf aukið frelsi í útflutningi og samgöngum.

Jafnframt er skynsamlegt að ýta fiskvinnslunni í farveg tilbúinna fiskrétta í neytendaumbúðum, svo að einhver von sé um að ná verðmætisaukningu upp í fyrirhöfn og kostnað. Ekki er þó hægt að sigla hraðar fram á því sviði en markaðurinn leyfir hverju sinni.

Í rauninni hefur þróun tilbúinna fiskrétta í neytendaumbúðum verið hægfara í fiskvinnslunni, en þeim mun meiri áherzla verið lögð á að ýta þröngsýnum stjórnmála- og embættismönnum út í óbeina skattlagningu og takmarkanir á útflutning ferskra sjávarafurða.

Kvóti er skertur, ef siglt er beint með aflann. Skömmtun er beitt til að takmarka útflutning á ferskum fiski í gámum. Kröfur magnast um auknar aðgerðir gegn þessum hagkvæma útflutningi. Og nú hafa verið stofnuð samtök um verndun fortíðarvanda í fiskvinnslu.

Dæmin benda til, að Íslendingar beri lítið skynbragð á almennt viðurkennd markaðslögmál og láti stjórnast af röklausum klisjum á borð við “fullvinnslu” sjávarafurða. Þessi dýri og þungi klisjuburður leiðir til efnahagserfiðleika á borð við þá, sem við búum nú við.

Það er tvískinnungur og skert raunveruleikasýn, er menn sjá ekki samhengi milli verðmætis “óunninna” fiskafurða og dálætis okkar á nýrri ýsu í fiskbúðum.

Jónas Kristjánsson

DV