Þverstæður í fiskvinnslu

Greinar

Skýrasta þverstæða íslenzkrar fiskvinnslu er, að annars vegar getur hún aðeins greitt hálft kaup í samanburði við það, sem dönsk fiskvinnsla borgar, og hins vegar er rekstrarkostnaður hennar svo hár, að hún getur ekki keppt við frystingu um borð í togurum.

Hvorugt er umdeilt sem staðreynd. Íslendingar hafa flykkzt í fiskvinnslu til Danmerkur og hafa þar tvöfalt tímakaup. Þetta hafa margir aðilar sannreynt, þar á meðal DV, sem sendi mann á vettvang. Þetta leiðir til, að þar er unninn styttri og þægilegri vinnudagur.

Við sjáum hinn hluta þverstæðunnar greinilega hér heima. Margar vinnslustöðvar hafa lagt upp laupana eða sameinazt öðrum. Hlutur landfrystingarinnar í heildarfrystingunni hefur dregizt saman, meðan sjófrysting hefur aukizt. Þetta sést svart á hvítu í hagtölum.

Eðlilegt er að álykta af þessu, að íslenzk fiskvinnsla sé illa rekin. Það hafa raunar sumir foringjar stéttarfélaga sagt. Málsvarar fiskvinnslunnar hafa andmælt þessu, en ekki getað útskýrt þverstæðuna, sem er forsenda gagnrýninnar, er fiskvinnslan hefur sætt.

Raunar er staða fiskvinnslunnar misjöfn. Einkum eru það sum frystihús, sem ramba á barmi gjaldþrots. Önnur frystihús stórgræða á sama tíma. Þannig gengur til dæmis mjög vel í Neskaupstað og á Eskifirði, meðan miður gengur í sumum öðrum byggðarlögum á Austurlandi.

Sem heild er rekstur fiskvinnslu einna verstur á Vestfjörðum. Þar hafa forstjórar einblínt á kosti sérhæfingar og gengið svo langt, að þeir sjá ekkert nema þorsk og aftur þorsk. Svo er nú komið, að hin grónustu fyrirtæki þar vestra eiga stundum ekki fyrir olíu í Smuguna.

Annars staðar hafa sumir forstjórar verið sveigjanlegri og haft augun opin fyrir margvíslegri og fjölbreyttri vinnslu. Þeir hafa meðal annars látið sækja sjávarfang á fjarlæg mið. Þannig hafa þeir getað náð hlutdeild í góðum aflabrögðum á miðum annarra landshluta.

Hornafjörður er gott dæmi um stað, þar sem fiskvinnsla átti í erfiðleikum fyrir nokkrum árum, en hefur nú halað sig upp með því að auka fjölbreytni og framlengja vinnsluferlið í átt til neytendamarkaðar. Þar er einfaldlega betur stjórnað en á Vestfjörðum.

Þetta er hin þverstæðan í fiskvinnslunni. Sum fiskvinnsla er nánast gjaldþrota, meðan önnur græðir á tá og fingri. Skýrasta dæmið er frá Neskaupstað, þar sem galdramenn kapítalismans eru að reisa hálfs milljarðs króna frystihús fyrir gróðann frá því í fyrra.

Aðstæður fiskvinnslunnar eru sífellt að breytast. Samsetning og staðsetning aflans eru mismunandi frá ári til árs. Forstjórum dugir ekki að frjósa í fyrri ákvörðunum, heldur verða þeir sífellt að hugsa dæmi sitt frá grunni. Aðeins þannig getur rekstrardæmið gengið upp.

Í stórum dráttum hafa forustumenn stéttarfélaga rétt fyrir sér, þegar þeir efast um, að forstjórar fiskvinnslunnar séu réttir menn á réttum stað. Margir þeirra ná að vísu góðum árangri, en hinir eru allt of margir, sem láta breytingar í umhverfinu koma sér í opna skjöldu.

Nútímaþekking á vinnsluferli og fjármálum, í stjórnun og markaðsfræðum hefur sigið misjafnlega inn í fiskvinnsluna. Eigendum hennar ber að líta í kringum sig og spyrja, hvort hluti vandræðanna felist ekki einmitt í, að nútímaþekking hefur víða verið vanrækt.

Dagkaupið í fiskvinnslu er lágt og reksturinn samt dýr. Sumum gengur vel og aðrir fara á hausinn. Þverstæður atvinnugreinarinnar hljóta að skera í augu.

Jónas Kristjánsson

DV