Þykjusta gegn sauðfé

Punktar

Sum landsvæði eru þekktari fyrir riðu en önnur. Hrunamannahreppur er eitt þeirra. Þaðan koma þriðja hvert ár fréttir um riðu. Ætla mætti, að reynt sé að hindra samgang sauðfjár á slíku svæði. Víða er þar að vísu vel girt, en sauðfé sleppur samt í gegn. Það stekkur yfir vegaristar eða syndir yfir ár. Eða er í eigu bænda, sem láta girðingar sínar grotna niður eða opna hliðin. Þetta er látið viðgangast og segir mér, að baráttan gegn riðu sé meira eða minna tilgangslítil. Kannski skipta girðingar litlu máli í vörnum gegn sjúkdómum. En þá eiga menn að viðurkenna það og ekki hafa þykjustuvarnir.