Sá á fésbókinni, að Friðrik V bauð í hádeginu upp á þykkvalúru, lemon sole. Við gömlu hjónin ruddumst þangað og snæddum þennan sjaldgæfa fisk, sem er með dýrari fiskum í Evrópu. Mundi kosta 6.000 krónur á Sheekey’s í London. Á Friðriki V kostaði hann 1.750 krónur að innifalinni frábærri hörpudiskssúpu dagsins. Sönnun þess, að gæði lífsins þurfa nánast ekkert að kosta, séu menn á vaktinni. Þykkvalúran var úr Arnarfirði, frá Þresti Leó leikara á Bíldudal. Auðvitað upplifun, heilsteikt á pönnu, borin fram með sítrónu. Friðrik V er mitt uppáhalds bistró, karlinn er „bakvið eldavélina“ og konan yfir salnum.