Þyngdir ofbeldisdómar

Greinar

Í ræðu sinni við opnun nýs Hæstaréttarhúss óskaði dómsmálaráðherra eftir þyngri dómum í ofbeldismálum. Forseti Hæstaréttar tók síðan undir þetta í viðtali við DV og sömuleiðis dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness. Yfirvöld eru farin að taka mark á almenningsálitinu.

Dómstjórinn á Reykjanesi sagðist raunar löngum hafa verið þeirrar skoðunar, að harðar sé tekið á fjármunabrotum en líkamsmeiðingabrotum. Þetta er það sama og nokkrum sinnum hefur verið bent á hér í blaðinu. Úrelt gildismat hefur of lengi ráðið ferðinni.

Gömul lög bera þess merki, að peningar hafa löngum verið taldir æðri lífi og limum fólks. Tímabært er, að Alþingi fari að endurskoða refsiákvæði laga með breytt gildismat í huga og gefi þannig dómstólum ábendingu um, að breyta þurfi réttarvenju í þjóðfélaginu.

Einkum eru það þó dómstólarnir, sem þurfa að taka sig á. Þeir hafa ekki notað svigrúm laga við ákvörðun refsingar í ofbeldismálum. Þeir hafa haldið sig við neðri jaðar svigrúmsins og þar á ofan fellt skilorðsbundna dóma í þremur tilvikum af hverjum fjórum.

Hæstiréttur hefur gefið tóninn að þessu leyti. Þegar forseti Hæstaréttar tekur undir orð þeirra, sem vilja breytingar, er ljóst, að breytingar verða. Hann varði einnig stofnun sína með því að benda á, að Hæstiréttur hefði að undanförnu þyngt refsingar í kynferðisafbrotum.

Forseti Hæstaréttar og ýmsir fleiri dómarar hafa tekið eftir aukinni tíðni ofbeldisglæpa og kröfum úr grasrót almenningsálitsins um harðari refsingar. Enda getur það ekki farið fram hjá neinum, að fólskulegt ofbeldi er skyndilega orðið daglegt brauð hér á landi.

Töluverður hópur manna stundar ofbeldi í síbylju. Þeir ráðast á hvern, sem fyrir verður. Yfirstéttin í landinu hefur lengi látið sér það í léttu rúmi liggja, en hrökk þó við, þegar ráðizt var upp úr þurru á sýslumanninn í Reykjavík. Sú árás færði ofbeldið nær yfirstéttinni.

Þrátt fyrir innantómar fullyrðingar lögreglunnar um, að ofbeldi sé með óbreyttum hætti, fer ekki framhjá neinum öðrum, að hættulegt ofbeldi er í örum vexti. Sérstaklega er áberandi, að ofbeldið er fólskulegra en áður og snýr meira en áður að óviðkomandi og óviðbúnu fólki.

Þyngri refsingar hafa meðal annars það hlutverk að losa þjóðina við ofbeldismenn af götunum, svo að fólk geti gengið um þjóðfélagið í friði. Tilvera ríkisvalds er beinlínis afsökuð með því, að það sé eins konar næturvörður og eigi að sjá um öryggi fólks á almannafæri.

Forseti Hæstaréttar og einn hæstaréttarlögmaður hafa samt varað við, að menn megi ekki vera of refsiglaðir. Vísa þeir vafalaust til þess, að lítið samband sé milli þyngdar refsingar og varnaðar hennar. En refsingar hafa ekki bara það hlutverk að vara fólk við glæpum.

Megintilgangur refsingar er ekki að vera misheppnuð tilraun til að bæta afbrotamann eða að vara menn við afbrotum. Samkvæmt orðsins hljóðan er refsing einfaldlega refsing. Hún hefur auk þess þá afar þægilegu hliðarverkun að taka hættulegt síbrotafólk úr umferð.

Þyngri refsingar kosta auðvitað meira rými til vistunar glæpamanna. Það kostar fleiri og stærri fangelsi að þyngja ofbeldisdóma. Þjóðfélagið er áreiðanlega tilbúið að taka þeirri aukaverkun, því að ofbeldisfólk hefur gengið fram af almenningi og núna einnig yfirvöldum.

DV hefur löngum hvatt til stefnubreytingar. Þegar dómsmálaráðherra og forseti Hæstaréttar taka í sama streng, má búast við, að hjólin fari að snúast.

Jónas Kristjánsson

DV