Þýzkaland tekur forustu

Greinar

Vesturþýzka ríkisstjórnin hefur tekið frumkvæðið af hinni bandarísku í afstöðunni til breyttra stjórnarhátta í austanverðri Evrópu. Þannig hefur margra alda gömul hefð þýzkumælandi forræðis í Mið-Evrópu slegið sögulegu striki yfir tvær heimsstyrjaldir tuttugustu aldar.

Vesturþýzka stjórnin er eina stjórnin á Vesturlöndum, sem hefur markvisst aflað sér áhrifa og ítaka í Austur-Evrópu. Þýzkir stjórnmálamenn, embættismenn, bankamenn og iðjuhöldar eru orðnir öllum hnútum kunnugir í fjárhag og efnahag austantjaldslanda.

Sagnfræðilega má líta á Vestur-Þýzkaland sem arftaka Rínarsambandsins, eins og Konrad Adenauer vildi hafa það, og Austur-Þýzkaland sem arftaka Prússlands. Því hefur opnunin til austurs einkum beinzt að Austur-Þýzkalandi, en seilist þó miklu víðar til áhrifa.

Sérstaklega er mikilvægt, að í Póllandi og Ungverjalandi hafa margir trú á Vestur-Þýzkalandi sem uppsprettu fjármagns, iðnþekkingar og efnahagslegra markaðshugmynda. Þetta eru þau tvö lönd Austur-Evrópu, sem mest líta til vesturs nú um skeið.

Hugsanlegt er, að aukið frjálsræði í Sovétríkjunum og sumum fylgiríkjum þeirra sé upphaf þróunar, sem ekki verði snúið við í fyrirsjáanlegri framtíð. Ef svo verður, mun stefna vesturþýzkra stjórnvalda reynast ákjósanleg aðferð til að stuðla að vestrun austursins.

Ekki eru þó minni líkur á, að afturkippur komi í tilraunir til opnunar og viðreisnar í austri, þegar almenningur sér fram á atvinnuleysi og verðhækkanir lífsnauðsynja, og leiðtogar hans sjá, að leiðin til vestrænnar auðlegðar er miklum mun torsóttari en þeir ætluðu.

Þessi varfærna túlkun ræður að nokkru ferð stjórnvalda í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hin nýja stjórn Bush byggir stefnuna einnig á, að Gorbatsjov muni halda áfram einhliða skrefum til samdráttar í vígbúnaði, án þess að nokkuð þurfi að sinni að koma á móti.

Ekki má gleyma, að á flestum sviðum er vígbúnaður Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra í Evrópu mun meiri en Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Atlantshafsbandalaginu. Því þarf að semja um meiri og fyrri samdrátt í hermætti austan gamla járntjaldsins.

Mikilvægt er, að vesturþýzku og engilsaxnesku andstæðurnar í viðhorfum fái að þróast samhliða. Ef viðbragðsleysi stjórnar Bush við endurteknum eftirgjöfum Gorbatsjovs leiðir til betra jafnvægis í vígbúnaði á lægri nótum, hefur varfærnisstefnan skilað góðum árangri.

Um leið er varnfærnisstefnan afar hættuleg. Hún getur leitt til, að Vesturlönd missi af heimssögulegu tækifæri til aukins öryggis. Það mundi gerast á þann hátt, að Sovétríkin féllu frá stefnu eftirgjafa í vígbúnaði á þeim forsendum, að Vesturlönd virtu þær einskis.

Ennfremur er viðhorf almennings á Vesturlöndum smám saman að breytast Sovétríkjunum í hag og Bandaríkjunum í óhag, einmitt vegna þess að allt friðarfrumkvæði er komið í hendur Gorbatsjovs, meðan Bush og Baker og þeirra menn standa stífir eins og þvörur.

Málin hafa nú leitt til tímabundins klofnings í Atlantshafsbandalaginu milli engilsaxnesku ríkjanna annars vegar og hins vegar nokkurra ríkja á meginlandi Evrópu, sem fylgja Vestur-Þýzkalandi að málum. Það þarf þó ekki að leiða til neinna langtímavandræða.

Vesturlönd þurfa í senn að geta haldið vöku sinni gegn hernaðarhættu úr austri og hvatt til framhalds opnunar og viðreisnar í löndum Austur-Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV