Sigurganga Vals í Evrópukeppni meistaraliða í handknattleik karla er komin á svo hátt stig eftir leikinn um helgina, að sjálfur úrslitaleikur álfunnar blasir við. Meistarar Svía og Spánverja hafa óvænt verið lagðir að velli í átta liða úrslitum og undanúrslitum.
Þetta er ótrúlegt afrek lítils félags áhugamanna í litlu landi áhugamanna. Menn, sem þurfa að vinna fyrir sér með öðrum hætti, bera sigurorð af þrautþjálfuðum atvinnumönnum, sem geta einbeitt sér að íþrótt sinni við hinar beztu aðstæður. Við óskum öll Val til hamingju.
Handknattleikur hefur um árabil verið helzta keppnisíþrótt Íslendinga. Valsmenn hafa þar verið fremstu röð, en engan veginn einráðir. Um þetta leyti eru þeir um miðja fyrstu deild. Breiddin í handboltanum byggist á meiru en einu félagi.
Landslið Íslands í handknattleik hefur náð umtalsverðum árangri á undanförnum árum. Fyrir þremur árum lék það grátt Dani, Pólverja og Tékka, öndvegisþjóðir í handbolta. Og nú hefur ný og efnileg kynslóð haslað sér völl í landsliðinu.
Velgengni Vals í Evrópukeppni meistaraliða er almenningi og stjórnvöldum hvatning til að láta ekki sitt eftir liggja. Aðstaða til iðkunar handknattleiks og raunar annarra íþrótta er mun lakari en efni standa til.
Íslendingar hafa ráð á að hlúa betur að íþróttum en þeir gera. Það gildir jöfnum höndum um almenningsíþróttir og keppnisíþróttir. En keppnisíþróttir eru í eðli sínu dýrari í mannvirkjum og rekstri, kosta meira af almannafé.
Íþróttamannvirkjum hefur fjölgað hratt á undanförnum árum. En betur má, ef duga skal. Og á mörgum sviðum eykst eftirspurnin mun hraðar en framboðið. Sem dæmi má nefna, að á einu ári hefur aðsókn að skíðalyftum í Bláfjöllum þrefaldazt, en flutningsgetan haldizt óbreytt.
Unga fólkið, sem tekur þátt í keppnisíþróttum, þarf að bæta daglegri þjálfun ofan á venjulegan vinnudag. Oft veldur keppnin því tekjutapi, námstöfum og óeðlilegum fjarvistum frá fjölskyldu. Þetta er mikið álag umfram hina erlendu atvinnumenn.
Þetta unga fólk vinnur síðan oft sæta sigra, sem hlýja þjóðinni um hjartarætur, þjappa henni saman og magna sjálfstraust hennar. Gunnar Huseby, Vilhjálmur Einarsson, Friðrik Ólafsson og aðrir slíkir eru smáþjóð mikils virði.
Íþróttir eru stjórnmál. Það sjáum við greinilega af því ofurkappi, sem stórþjóðir á borð við Sovétríkin leggja á þjálfun afreksfólks. Slíkt kapp getur gengið út í öfgar, en langt er frá, að sú sé raunin hér á landi.
Opinberir aðilar þurfa að verja meira fé til íþrótta en þeir gera. Þeir þurfa að stuðla að byggingu íþróttamannvirkja og greiða fyrir ráðningu fyrsta flokks þjálfara í fullu starfi. Þetta er raunar ein hlið sjálf stæðisbaráttunnar.
Árangur keppnismanna hvetur börn og unglinga til þáttöku í hollu tómstundastarfi á ýmsum sviðum íþrótta. Og í seinni tíð hafa hinir fullorðnu einnig tekið við sér í auknum mæli, enda veitir ekki af í innisetuþjóðfélaginu.
Allt er þetta samtvinnað, æskulýðsstarfið, íþróttir fullorðinna og svo keppni afreksmanna. Framfarir á einu þessara sviða hafa áhrif í sömu átt á hinum. Opinber stuðningur við keppnisfólk skilar sér í auknum almenningsíþróttum.
Uppákoma á borð við sigur Vals á sunnudaginn sendir strauma um allt þjóðlífið. Hún flytur með sér stolt, sem gerir þjóðinni auðveldara að fást við vandamál sín. Og hún hvetur þjóðina til að sinna íþróttum betur en áður, bæði sem skattgreiðendur og þáttakendur.
Til hamingju með sigurinn, Valur.
Jónas Kristjánsson.
Dagblaðið