Til sölu: Orð og gerðir

Greinar

Bandaríska læknafélagið hefur gert samning við hrærivélafyrirtækið Sunbeam um að mæla með ýmsum vörum þess, svo sem blóðþrýstingsmælum, hitateppum, hitamælum og rakatækjum. Þetta er hrein fjáröflun og tengist ekki gæðum þessara tækja umfram önnur slík.

Bandaríska krabbameinsfélagið hefur á sama hátt mælt með Florida appelsínusafa, sem er engu hollari en aðrar tegundir appelsínusafa. Bandaríska tannlæknafélagið hefur mælt með Crest tannkremi, sem er engu gagnlegra en aðrar tegundir tannkrems.

Allt er þetta hrein fjáröflun félaganna, svipuð þeirri, er íþróttamenn mæla með ákveðnum merkjum íþróttavöru, leikarar með ákveðnum merkjum tóbaks og rithöfundar með ákveðnum tegundum áfengis. Fólk er að selja frægð sína í smáskömmtum fyrir peninga.

Um öll þessi meðmæli gildir, að það eyðist, sem af er tekið. Trúverðugleiki bandarísku læknasamtakanna, bandaríska krabbameinsfélagsins og bandaríska tannlæknafélagsins minnkar auðvitað við þessa augljósu misnotkun á nöfnum þeirra í skammvinnu ábataskyni.

Bandarískir læknar hafa verið að síga í áliti á heimavígstöðvum. Fólk er í auknum mæli farið að efast um gagnsemi þeirra og er farið að snúa sér að óhefðbundum lækningum af fjölbreyttasta tagi, sumum gagnlegum og öðrum ekki, eins og gengur og gerist.

Þetta er þáttur í stærra ferli, þar sem allt er orðið að söluvöru. Bezt sést þetta í bandarískum stjórnmálum, þar sem verðmiðar eru komnir á flesta hluti. Það kostar til dæmis ákveðna upphæð í kosningasjóð demókrata að fá að sofa í svefnherbergi Lincolns í Hvíta húsinu.

Þeim tíma er að ljúka, að fólk geti fengið aðgang að stjórnmálamönnum á annan hátt en gegn gjaldi. Þannig varði þjóðflokkur Cheyenne-Arapaho-indíána einum og hálfum árstekjum sínum fyrir sæti handa höfðingja sínum í hádegisverði með Clinton Bandaríkjaforseta.

Þetta siðleysi gengur svo langt, að beinir og óbeinir sendimenn erlendra ríkja, einkum í Suðaustur-Asíu greiða milljónir dollara fyrir að fá að sofa eina nótt í Hvíta húsinu, vera á hádegisverðarfundi með forsetanum eða spila með honum níu holur í golfi.

Spilling af þessu tagi er ekki bundin við Bandaríkin, þótt ný listform á því sviði sjái þar oftast fyrst dagsins ljós, af því að Bandaríkjamenn eru oft hugkvæmari en aðrir. Á sumum sviðum ganga aðrar þjóðir lengra, einkum í þágu utanríkisviðskipta við þriðja heiminn.

Í Þýzkalandi og Japan fá fyrirtæki skattafslátt af mútugreiðslum til erlendra fyrirtækja til að liðka fyrir viðskiptum, svo að viðskiptajöfnuðurinn við útlönd geti batnað. Þetta magnar spillingu í þriðja heiminum og dregur úr getu hans til að lyfta sér upp úr eymdinni.

Reynt hefur verið að mæla spillingarkostnað í ýmsum löndum. Talið er, að hann sé víða um 5% landsframleiðslunnar í þriðja heiminum, sums staðar um 10% í Suðaustur-Asíu og um 20% í Indónesíu. Í því landi er spillingarkostnaðurinn tvöfaldur launakostnaðurinn.

Samanlagt dregur þessi víðtæka spilling úr getu lýðræðiskerfisins til að standa undir hlutverki sínu. Fjármagni er veitt á annarlegan hátt gegn straumum markaðarins. Traust fer minnkandi, þegar almenningur áttar sig á, að orð og gerðir flestra eru til sölu.

Þegar læknasamtök eru gegn greiðslu farin að mæla með hrærivélafyrirtæki, er þjóðfélagið orðið svo gegnsýrt af spillingu, að hún er orðin að afli allra hluta.

Jónas Kristjánsson

DV