Til þjónustu reiðubúnar.

Greinar

Opinberar stofnanir, er semja þjóðhagsskýrslur og þjóðhagsspár, ættu að gera þetta í þjónustu þjóðarinnar. Þær skerðast trausti, ef þær gera þetta sem undirsátar þeirrar ríkisstjórnar, sem er við völd hverju sinni. Þær mega ekki vera ráðherrum of þjónustuliprar.

Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun þurftu á sínum tíma að sækja á brattann til að afla tölum sínum almenns trausts. Þetta tókst að töluverðu leyti, sem betur fer. En um leið varð það til þess, að stofnanir þessar hættu að leggja eins hart að sér í þessu og þær höfðu áður gert.

Um leið hafa þessar opinberu stofnanir fengið samkeppni utan úr bæ. Samtök og fyrirtæki hafa komið sér upp hagtöludeildum, sem safna í skýrslur og spár eins og opinberu stofnanirnar gera. Upplýsingar þessara nýju aðila stinga oft í stúf við upplýsingar hinna opinberu.

Sem dæmi má nefna, að Þjóðhagsstofnun spáir nú 20% verðbólgu á næsta ári. Aðilar úti í bæ spá hins vegar 30-40% verðbólgu, svo sem fram kom á spástefnu um daginn. Á þessum tvenns konar spám er svo gífurlegur munur, að hann hlýtur að vekja bæði athygli og furðu.

Þegar forsendur eru skoðaðar. verður að segjast, að spárnar utan úr bæ vekja töluvert meira traust en spá Þjóðhagsstofnunar, sem virðist þrungin sömu bjartsýni og allar fullyrðingar ríkisstjórnarinnar um horfur í fjármálum og efnahagsmálum á næsta ári.

Þjóðhagsstofnun virðist gefa sér þá forsendu, að margvísleg bjartsýni ríkisstjórnarinnar sé byggð á nógu traustum grunni. Samt blasir við, að kenningar ríkisstjórnarinnar fela í sér margs konar óskhyggju, sem engar horfur eru á, að verði að veruleika.

Ekki þarf annað en að skoða fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar til að sjá, að ríkisbúið mun áfram magna verðbólgu og erlendar skuldir og tefla á þann hátt þjóðarhag í tvísýnu. Forsendur frumvarpsins munu ekki standast og þar með er talin þjóðhagsspáin.

Seðlabankinn er ekki síður iðinn við að þjóna ímynduðum hagsmunum sérhverrar ríkisstjórnar með slíkum hætti. Hann er reiðubúinn til stuðnings, þegar núverandi ríkisstjórn telur það muni létta sér lífið á öðrum sviðum að neita sjávarútveginum um gengislækkun.

Sá banki, sem fyrr á tímum varaði ríkisstjórnir við útsölu á gjaldeyri, er nú farinn að draga fram erlendar skoðanir um fastara gengi, þótt þau sjónarmið henti betur í ýmiss konar þjóðfélagi, sem er stöðugra en okkar, og henti miklum mun síður í okkar verðbólgu.

Seðlabankinn gengur raunar enn lengra. Talsmenn hans halda fram, að gengið sé í rauninni alls ekki svo vitlaust skráð þessa dagana. Þjóðhagsstofnun tekur svo þátt í þessum bardaga við sjávarútveginn og segir tapið í fiskvinnslunni aðeins vera 3%, en ekki 8%.

Í öllum þessum ágreiningi, sem hér hefur verið rakinn, má rökstyðja ýmis sjónarmið. Athyglisvert er þó, að hinar opinberu stofnanir halda ætíð fram tölum og spám, sem henta ríkisstjórninni, falla að nánast barnalegri bjartsýni hennar á stöðu fjármála og efnahagsmála.

Ef svo heldur áfram, verður í auknum mæli farið að líta á Seðlabankann og Þjóðhagsstofnun sem fremur gagnslitlar áróðurstofnanir stjórnvalda. Í staðinn munu menn fremur efla trú á tölur og spár aðila út í bæ, sem hvorki þjóna þrýstihópum né stjórnvöldum.

Jónas Kristjánsson

DV