Tilboð veldur gremju.

Greinar

Þeir, sem fara þjóðveginn milli Akureyrar og Reykjavíkur, verða um það bil tíu sinnum fegnir. Rúmlega helmingur leiðarinnar hefur fengið varanlegt slitlag, en í bútum hér og þar. Þessum bútum fjölgar svo á hverju sumri eða þá að þeir lengjast. Verkinu á að ljúka árið 1994.

Þessi bútasmíði er auðsæilega tiltölulega dýr. Það kostar töluverða vinnu og mikið fé að hefja verk og ljúka því. Enda sýnir reynslan, að Vegagerðin fær því hagstæðari tilboð hjá verktökum sem bútarnir eru lengri. En hvers vegna er þá haldið í hið gamalkunna smáskammtakerfi?

Ástæðan er alkunn. Stjórnmálamenn þurfa að fá malbikaðan bút í sínu kjördæmi. Ef lagður er skammtur á Vesturlandi, þarf að leggja annan á Norðurlandi vestra. Þetta er hluti hins mikla herkostnaðar þjóðarinnar af kjördæmapoti og ráðsmennsku stjórnmálamanna.

Hagvirki hf. er verktaki, sem hefur orðið frægur fyrir lág tilboð á undanförnum árum. Samtals hefur fyrirtækið sparað þjóðinni 500 milljónir króna með því að vinna verk undir áætlunarverði. Þetta fyrirtæki hefur nú kastað sprengju á borð stjórnmálakerfisins.

Hagvirki býðst til að leggja í samfelldri bunu varanlegt slitlag á það, sem eftir er leiðarinnar. Verkið á að kosta 74% af áætlunarverði og spara þjóðinni rúnar 300 milljónir í mismuninum. Þá vill fyrirtækið klára verkið sjö árum á undan áætlun og lána ríkinu mismuninn.

Auðvitað vakti þetta tilboð mikla gremju í kerfinu. Samgönguráðherra sagði hér í blaðinu, að það væri ekki raunhæft og að um það mundi ekki nást samstaða á Alþingi. Þingmenn einstakra kjördæma mundu láta í sér heyra. Loks kallaði ráðherra tilboðið “sérkennilegt”.

Ekki var léttari tónninn í vegamálastjóra. Hann kvað tilboðið “furðulegt”. Það mundi taka vinnu af tugum verktaka, bílstjórum og “öllum mögulegum”. Hann kvað ýmsa galla fylgja því að láta einn verktaka hafa svona stórt verkefni. Og tæpast þyrfti að klára verkið svona snemma.

Þannig krefst kerfið þess að fá áfram að beita dýrum og gamaldags vinnubrögðum. Enda er auðvelt að brenna peningum, sem aðrir eiga, í þessu tilviki þjóðin. En kerfið kastar líka peningum á ýmsan annan hátt, til dæmis með því að láta gera hluti, sem þjóðin þarf ekki á að halda.

Samgönguráðherra er líka heilbrigðisráðherra. Í því hlutverki telur hann sig þurfa að verja umtalsverðum fjárhæðum á hverju ári til byggingar ofvaxins sjúkrahúss í heimabæ sínum Ísafirði. Það mikla mannvirki er þegar haft til sýnis sem víti til varnaðar.

Fyrirrennarar hans í faginu ætluðu að reisa mikinn sjúkrahúss-mammút á Akureyri. Þar er fyrirferðarmest heljarmikil tengiálma, sem sjúkrahúslæknar koma frá útlöndum til að hlæja að. Þetta eru bara tvö lítil dæmi af ótal mörgum í fjárlögum og lánsfjárlögum.

Kerfið byggir sínar kröflur um allt land. Til viðbótar hefur það með sérstöku sjóðakerfi tryggt, að verulegur hluti fjárfestingar í landinu rennur ekki í eðlilegum farvegum til arðbærra verkefna. Þannig á til dæmis að fjárfesta 1.000 milljónir í landbúnaði á þessu ári.

Stundum furða menn sig á misræmi þjóðartekna og kaupmáttar og telja jafnvel milliliði stinga mismuninum á sig. Skýringin er hins vegar sú, að kjósendur hafa sjálfir kosið yfir sig kerfi, sem brennir fé á ótal vegu. Nú síðast mun það gera það með því að neita hringvegstilboði.

Jónas Kristjánsson.

DV