Matgæðingar, sem ég tek mark á, kaupa tilbúna fiskrétti í nýtízku fiskbúð til að setja á pönnu. Það þori ég ekki, fer í gamaldags fiskbúð. Ég hef óbilandi trú á, að gamall fiskur sé notaður í tilbúna rétti. Fyrst sé fiskurinn seldur eins og hann er eða afhausaður og slógdreginn, kannski flakaður. Það, sem ekki seljist yfir daginn, fari í tilbúna fiskrétti eða plokk. Þegar ég kaupi nýjan fisk, leynir sér ekki við eldamennskuna, hvort hann er raunverulega nýr eða ekki. Tilbúni fiskurinn leynir hins vegar á sér, ellibragðið af fiskinum er falið bak við krydd og legi og sósur.