Tilfærsla á fáokun

Greinar

Samkvæmt erlendri hagfræði er áreiðanlega gott að koma á samkeppni um varðveizlu og ávöxtun lífeyris landsmanna, svo að menn séu ekki skyldaðir til að borga í lífeyrissjóð stéttarinnar, ef hann hefur reynzt halda lakar á peningunum en hæfustu samkeppnisaðilarnir.

Samkvæmt erlendri hagfræði leiðir samkeppni af slíku tagi eins og önnur samkeppni til þess, að stærri hluti af lífeyrissparnaði þjóðarinnar renni til arðbærari þarfa. Þannig ætti lífeyrir hvers og eins að aukast meira en ella og þjóðarhagur ætti að eflast meira en ella.

Hins vegar verður að setja fyrirvara um samkeppni og markaðslögmál á Íslandi. Vegna smæðar markaðarins og valdamikilla hagsmuna hefur mótast fáokunarkerfi stórfyrirtækja, sem ekki skilar fólki lækkun verðs á vöru og þjónustu að hætti samkeppnishagfræðinnar.

Dæmi um sérstöðu Íslands er bankakerfið, sem er rúmlega tvöfalt dýrara en danska bankakerfið. Rekstrarkostnaður og afskriftir eru 5,1% af efnahagsreikningi íslenzkra banka, en 2,4% af efnahagsreikningi danskra banka. Munurinn stafar af íslenzkri fáokun.

Nú hefur verst rekni bankinn keypt helming í tryggingafélagi til að tryggja stöðu sína í nýju mynztri fjármálafyrirtækja, þar sem bankar, tryggingafélög, verðbréfasjóðir og aðrir ávöxtunarsjóðir reyna að sameinast á ýmsa vegu til að búa til fáokun handa sér.

Á Íslandi keppa valdastofnanir hagkerfisins nefnilega ekki um markaðinn. Menn reyna fremur að sameinast um hann með því að kaupa hlutabréf hver í öðrum eða skiptast á hlutabréfum. Markmiðið er að fækka rekstrareiningum í hverjum geira án aðstoðar samkeppni.

Þess vegna er öldungis óvíst, að aukið frelsi í ráðstöfun lífeyris muni fylgja erlendum hagfræðikenningum. Líklegra er, að það færi frekar völd frá einni tegund fáokunarfyrirtækja til annarrar tegundar fáokunarfyrirtækja, frá lífeyrissjóðum til fjármálafyrirtækja.

Fyrirhugað frumvarp ríkisstjórnarinnar um lífeyrissjóði gengur ekki langt. Samkvæmt því áttu núverandi 4% launþegans og 6% launagreiðandans upp að ákveðinni krónutölu að renna í núverandi lífeyrissjóði, en meira frelsi að ríkja um ráðstöfun þess, sem umfram er.

Eftir að upp komst um tilvist frumvarpsins hefur forsætisráðherra lofað stéttarfélögunum því, að þau 10%, sem nú renni til lífeyrissjóða, verði ekki skert. Hins vegar er enn haldið opnu, að nýjar fjárhæðir, sem séu umfram þessi 10%, megi ávaxta á frjálsum markaði.

Andstaða stéttarfélaga og raunar einnig samtaka vinnuveitenda byggist ekki á því, að verið sé að skerða hagsmuni launþega með frumvarpinu, þótt því sé haldið fram. Það er verið að þrengja að hagsmunum stjórnarmanna í þessum sjóðum, þar á meðal verkalýðsrekenda.

Fulltrúum stéttarfélaga og samtaka vinnuveitenda líður vel í stjórnum lífeyrissjóða. Þeir óttast breytingar, sem geta aukið samkeppni við þá og flutt hluta af sparnaði fólks til annarra stofnana, þar sem aðrir sitja í stjórnum. Þetta er orsök andstöðunnar við frumvarpið.

Þessi staðreynd mælir með frumvarpinu. Hún bendir ein út af fyrir sig til þess, að ávöxtun af sparnaði muni aukast með auknu frelsi. En á móti kemur svo, að nýju ávöxtunaraðilarnir kunna að renna saman í fáokunarsæng að hætti Landsbankans og Vátryggingafélagsins.

Vegna sérstakra aðstæðna, sem látnar eru viðgangast á Íslandi, er ekki unnt að sjá, hvort fyrirhugað frumvarp um lífeyrissjóði verði til góðs eða ills eða einskis.

Jónas Kristjánsson

DV