Enn einn tilgangslausi matstaðurinn, í bakhúsi við Laugaveg 55. Vín og skel býður daufa matreiðslu og verðleggur hana dýrt, 5800 krónur þríréttað, litlu lægra en Sjávarkjallarinn, svipað og Tjörnin og Primavera, dýrari en Þrír Frakkar. Saltfiskur var bara saltur fiskur með frönskum kartöflum, rauðkáli og grænmetisteningum. Humar var óvenju smár og langeldaður. Humar- og kúskeljafroða var bara froða. Bezt var fjölbreytt sjávarréttasúpa, kostaði aðeins 1250 krónur í hádeginu. Hvíttaður kjallari með óbrjótanlegum vínglösum og svörtum borðdúkum býður öll borðvín í glasatali.