Tilsjónarmaður ómerktur

Greinar

Ekki er von á góðu í sjúkrahúskostnaði landsins, þegar heilbrigðisráðherra tekur hvorki mark á tilsjónarmanni, sem hún skipaði yfir Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði, né á sérstakri nefnd, sem skipuð var til að athuga, hvort tillögur tilsjónarmannsins væru ráðlegar.

Venja er, að ráðherrar skipi aðeins þá tilsjónarmenn, sem þeir treysti til að ná þeim markmiðum, sem stefnt er að. Þess vegna hefði mátt búast við, að heilbrigðisráðherra samþykkti fyrir sitt leyti tillögur tilsjónarmannsins til að grafa ekki undan getu hans til að gera gagn.

Ef tilsjónarmenn geta ekki reiknað með, að ráðherrar, sem skipa þá, standi við bakið á þeim, hætta þeir að geta starfað eins og tilsjónarmenn verða að gera. Þeir verða í þess stað fangar heimamanna, sem berjast um á hæl og hnakka gegn hvers konar hugmyndum um sparnað.

Það var strax til marks um staðfestuleysi heilbrigðisráðherra, að hún treysti sér ekki til að styðja tilsjónarmann sinn, heldur skipaði nefnd til að fara yfir tillögur hans. Sú nefnd komst að sömu niðurstöðu og tilsjónarmaðurinn, en samt bilaði kjarkur ráðherrans.

Hagsmunafulltrúar Hafnarfjarðar lentu í minnihluta í nefndinni, en höfðu samt sitt fram. Þetta sjá sjúkrahússtjórnir og sveitastjórnarmenn um allt land. Þeir munu nú eflast og notfæra sér ístöðuleysi og vandræðagang ráðherrans til að drepa sparnaðarhugmyndum á dreif.

Ástandið á Sankti Jósefsspítala er hlutfallslega margfalt lakara en það er á ríkisspítölunum. Hallinn á rekstrinum er fimmtungur kostnaðarins. Ef ráðherrann nær ekki fram sparnaði við slíkar aðstæður, er vonlaust, að hún geti rekið sjúkrahús landsins af neinu viti.

Vandræði sjúkrahúsgeirans við afgreiðslu fjárlaga á Alþingi byggist einmitt á því, að heilbrigðisráðherra hefur ekki bein í nefinu til að hafa hemil á eyðsluöflunum. Þess vegna verða niðurstöðutölur svo háar, að skera þarf niður það, sem brýnna er en sukkið sjálft.

Tillögur tilsjónarmanns Sankti Jósefsspítala og nefndarinnar fólu í sér, að bráðavaktir yrðu lagðar þar niður og helgarvaktir flyttust til ríkisspítalanna í Reykjavík. Reiknað var út, hver kostnaðaraukinn yrði á móti á ríkisspítölunum og var það dæmi afar hagstætt.

Hlálegast í máli þessu er, að tillögur tilsjónarmanns og nefndar hefðu leitt til meira öryggis Hafnfirðinga um helgar, því að þá mundu þeir hafa beinan aðgang að sjúkrahúsum með margfalt öflugri sérhæfingu í læknisfræði heldur en fæst í Hafnarfirði einum.

Berserksgangur hagsmunagæzlumanna Hafnarfjarðar hefur því leitt til þess, að bráðaöryggi Hafnfirðinga verður minna um helgar en það hefði orðið, ef tillögurnar hefðu náð fram að ganga. Þetta veit ráðherrann mæta vel, en lét samt bugast í þessu máli sem ýmsum öðrum.

Slæm reynsla er af heilbrigðisráðherranum eftir rúmlega hálfs árs starf hennar. Með ráðleysi sínu hleður hún upp vandamálum í ráðuneytinu, sem síðan leiðir til, að allt fer á annan endann og niðurskurður brýnna þátta í heilbrigðiskerfinu verður miklu meiri en ella.

Versti þáttur þessarar reynslu er, að tilsjónarmenn og annað trúnaðarfólk ráðherrans getur ekki treyst á hana, er hún ráfar út og suður í ákvörðunum og skiptir um sjónarmið eftir frekjunni í tilfallandi hagsmunagæzlu hverju sinni. Hvergi er fastan punkt að finna.

Dæmigert fyrir þessi vinnubrögð er að skipa tilsjónarmann og skilja hann síðan eftir hangandi sem ómerking í lausu lofti með tillögur, sem ekki er farið eftir.

Jónas Kristjánsson

DV